Svört starfsemi færist í vöxt á ný

Kennitöluflakkarar á ferð

Flest bendir til að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi sem erfitt er að aðgreina frá venjulegri brotastarfsemi sé aftur að færast í aukana á ákveðnum sviðum á íslenskum vinnumarkaði. Það á ekki síst við í byggingariðnaði en einnig víðar, til dæmis á sumum sviðum ferðaþjónustu.

Enn fær það að viðgangast að einstaklingar, sem hafa orðið uppvísir að refsiverðri starfsemi í atvinnurekstri, setji félög í þrot, vísi launakröfum á Ábyrgðarsjóð launa, standi hvorki skil á gjöldum til verkalýðsfélaga né lífeyrissjóða, kaupi svo nýtt félag með nýrri kennitölu á næstu lögfræðiskrifstofu og byrji leikinn upp á nýtt. Nýja kennitalan er skömmu síðar komin með stórt verkefni á vegum verkkaupa, sem stundum er aðili á vegum ríkis eða sveitarfélags. Nýja kennitalan er hluti af keðju sem hefur í þjónustu sinni erlendar starfsmannaleigur en þær spretta upp eins og gorkúlur á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir. Leigurnar flytja inn erlenda verkamenn sem eiga að fá lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði og fá sumir greidd þau laun en aðrir ekki. Þessir erlendu verkamenn vinna flest eða öll störf sem unnin eru við byggingu fjölmargra mannvirkja á Íslandi um þessar mundir, líka þau störf sem iðnaðarmenn með löggilt starfsréttindi eiga að vinna samkvæmt lögum og samningum sem eiga að gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Vinnustaðaeftirlit sem verkalýðsfélög hafa haft frumkvæði að er eina skipulagða viðleitnin til að vinna gegn kennitöluflakki og svartri atvinnustarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Félag iðn- og tæknigreina er nú að fylgja eftir fjölmörgum kröfum sem orðið hafa til vegna vinnustaðaeftirlits. Fimm til sex slík mál eru á leið til dómstóla. Mörg dæmi eru um að kröfur Félags iðn- og tæknigreina hafi leitt til gjaldþrots fyrirtækja sem voru í raun ekkert nema skel utan um kennitölu. Félagið tapar fjármunum á þessu eftirliti og þessum innheimtumálum gegn eignalausum gervifyrirtækjum. Þessar aðgerðir duga ekki til að fá inn vangoldin gjöld í félags- og sjúkrasjóði. En félagið axlar með þessu ákveðna ábyrgð fyrir sína félagsmenn og fyrir íslenskt samfélag.

Að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar hafa aðilar vinnumarkaðarins lengi rætt nauðsynlegar aðgerðir gegn kennitöluflakki og svartri atvinnustarfsemi sín á milli. Búið er að skilgreina vandann og ná samkomulagi um fjölmargar nauðsynlegar aðgerðir. Nú síðast er í sjónmáli samkomulag um hvernig innleiða skuli reglugerð sem gildir á innri markaði ESB.

Vonandi fá nýir ráðherrar kjarkinn

Aðilar vinnumarkaðarins hafa oftar en einu sinni undanfarin ár kynnt stjórnvöldum hvaða aðgerðir þurfi til að taka á þessum vanda. Þar er efst á blaði að setja sem allra fyrst löggjöf um keðjuábyrgð þar sem kveðið er skýrt á um ábyrgð aðalverktaka og verkkaupa á því að starfshættir undirverktaka og þjónustufyrirtækja, erlendra jafnt sem innlendra, séu í fullu samræmi við lög, reglur og kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði.

Á liðnum árum hafa stjórnvöld við ákveðin tækifæri lýst vilja til að taka á vandanum og hafa jafnvel gefið um það opinberar yfirlýsingar. Efndirnar hafa hins vegar látið á sér standa. Það er því óskandi að ráðherrar vinnumarkaðsmála og neytendamála í nýrri ríkisstjórn finni sem allra fyrst hjá sér viljann sem þarf til að ganga í að þvo þennan svarta blett af íslensku atvinnulífi.

Með því að uppræta kennitöluflakk og svarta atvinnustarfsemi eru ríkissjóði færðar tekjur sem hann þarf á að halda en þær tekjur eru ekki sóttar í dag. Með því að taka á málinu fæst einnig betra samkeppnisumhverfi í íslensku atvinnulífi og bætt samkeppnisstaða fyrir þau fyrirtæki sem spila samkvæmt réttum leikreglum. Lausn á þessu máli er líka öryggismál fyrir allan almenning sem þarf að geta treyst því að það fólk sem vinnur við að reisa mannvirki hafi til þess þau réttindi sem lög og reglur gera kröfur um og sem samið er um í verksamningum milli kaupenda og byggingaraðila.

Það liggur alveg fyrir hvaða leiðir stjórnvöld þurfa að fara til að ná árangri í þessari baráttu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa varðað þann veg á liðnum árum. Það vantar ekki fleiri nefndir, bara efndir.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Janúar 2017