Styrkjum iðnaðarmannalögin en veikjum þau ekki

Styrkjum iðnaðarlögin

Oft á tíðum er afar þreytandi þegar stjórnvöld segja eitt við hátíðleg tækifæri en gera síðan eitthvað allt annað. Sannast þá að eitt er í orði en annað á borði. Ljóslifandi dæmi um þetta er iðnaðarlögin. Fyrir þingi liggur frumvarp um einföldum regluverks en sá hluti þess sem snýr að okkur iðnaðarmönnum er hvorki fugl né fiskur og er satt að segja skref í öfuga átt enda halda rökin fyrir breytingunum ekki vatni. Við höfum sent inn umsagnir um þetta sérkennilega frumvarp þar sem skoðunum okkar er komið skýrt á framfæri.

Stjórnvöld hafa talað fjálglega um að styrkja iðngreinar í sessi en leggja svo fram frumvarp þar sem ekki er með neinum hætti skerpt á úrræðum um eftirlit og stuðning, kæruleiðir eru hvorki gerðar skýrari né fljótvirkari og til að bíta höfuðið af skömminni, er ekki sinni haft samráð við iðnaðarmannafélögin við endurskoðun iðnaðarlaga.

Óþolandi er engin viðurlög séu við því að kenna sig við löggiltar iðngreinar án innistæðu. Jafn óþolandi er að stjórnvöld lýsi því yfir í tengslum við frumvarpið að verulega hafi skort á eftirlitshlutverk þeirra sjálfra og noti það svo til að réttlæta niðurfellingu kröfu um iðnaðarleyfi. Stjórnvöld ættu frekar að líta til Þýskalands þar sem áherslan er þvert á móti lögð á góðar og ítarlegar skráningar, virkt eftirlit og alvöru styrkingu iðnaðarlaga.

Linkind gagnvart misnotkun trausts

Átakanlegt er að fylgjast með linkind stjórnvalda gagnvart þeim sem misnota sér traust almennings. Má þar nefna þá sölumenn sem til að mynda hafa verið að selja fólki bíla þar sem búið er að skrúfa niður kílómetrafjölda í. FIT hefur ekki hikað við að fordæma þetta og áður sagt að þetta sé hreinræktuð glæpastarfsemi sem valdi gríðarlegum skaða á bílamarkaði og sái fræjum vantrausts og tortryggni í huga þeirra sem ætla að kaupa notaða bíla. Þarna víkur fagmennska fyrir fúski og þetta bitnar á þeim strangheiðarlegur, sem þurfa að sitja á hliðarlínunni, rétt eins og við, og horfa upp á algjört aðgerðarleysi og linkind gagnvart þessu framferði.

Þessir aðilar eru einfaldlega að brjóta á grunlausum neytendum. Af hverju er það látið viðgangast að ófaglærðir séu að störfum á þessum stöðum? Af hverju eru bílaleigubílar, sem eru mest eknu bílar landsins, aðeins skoðaðir á þriggja ára fresti í staðinn fyrir árlega? Aðrir atvinnubílar eru skoðaðir árlega. Þetta er óþolandi og FIT mótmælir enn á ný því ástandi sem leyft er að ríkja.

Skortur á samráði

FIT kallar eftir að auknu samráði hins opinbera við okkur iðnaðarmenn, en verulega hefur skort á það. Opið og gagnsætt samráðsferli ætti að vera reglan en ekki undantekningin, en enn á ný þurfum við að ganga hart eftir því að hið eðlilega verklag sé viðhaft. Samráð hjálpar öllum og hið opinbera ætti að sjá sóma sinn í að snúa við blaðinu og viðurkenna að óeðlilega lítið samráð sé viðhaft. Tíminn illa nýttur Æ betur sést hve mikilvægt er að nýta tímann vel.

Tímasetning framkvæmda skiptir máli og það á jafnframt við um viðhaldsmál. Því vekur furðu hve ríki og sveitarfélög hafa verið andvaralaus og nýtt tímann illa til framkvæmda og viðhalds þegar kjöraðstæður hafa verið til þess. Sinnuleysi og jafnvel hugsunarleysi eru orð sem koma upp í hugann þegar rólegheit ríkis og sveitarfélaga á sviði framkvæmda og viðhaldsmála eru skoðuð í því umhverfi sem ríkt hefur. Er það frekja að óska eftir að þessir aðilar séu á tánum og hugsi örlítið fram í tímann? Varla.

Vinnutímastytting

Nú upp úr mánaðamótum munum við kynna hugmyndir að vinnutímastyttingu en eins og félagar í FIT hafa verið upplýstir um, hafa viðræður okkar iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins um styttingu vinnuvikunnar farið lengra en margir bjuggust við. Vinnuvikan á Íslandi er með því lengsta sem þekkist og við höfum verið með einfalda kröfu; við viljum styttri vinnuviku án nokkurrar launaskerðingar. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með upp úr mánaðamótum þegar við kynnum málið.

Hilmar Harðarson, formaður FIT.
Janúar 2020.