Aldrei mikilvægara að stjórnvöld horfi til atvinnuskapandi verkefna

Hilmar Harðarson formaður

Nú er uppi fordæmalaust ástand í samfélaginu vegna Covid-19. Við höfum þurft að vera mikið í rafrænum samskiptum við okkar fólk á þessu ári og halda fundi í gegnum tölvuna eins og fleiri. Við bíðum með eftirvæntingu eftir því að komast aftur út og geta heimsótt félagsmenn okkar á vinnustöðum. Við á skrifstofu FIT höfum reynt okkar allra besta við að svara fyrirspurnum félagsmanna og vera til staðar fyrir ykkur þó svo að þjónustan hafi verið með breyttu sniði. Það jafnast samt ekkert á við það að hitta fólk og eiga eðlileg samskipti. Það er mikilvægt að koma af stað vinnustaðaheimsóknum á nýjan leik og að okkar félagsmenn geti heimsótt okkur á skrifstofu FIT. Það er mikið álag á okkar félagsmenn eins og aðra í þjóðfélaginu á þessum krefjandi tímum.

En vonandi eru bjartari tímar framundan. Það hefur mikil vinna farið í að fylgja eftir kjarasamningum. Við höfum náð ýmsu fram í kjarasamningum bæði við ríki og sveitarfélög. Ég hefði samt sem áður viljað sjá vaxtalækkanir skila sér betur út í umhverfið. Margir kjarasamningar sem hafa verið opnir hafa farið út í harðar deilur m.a. við stóriðjuna og fleiri. Það hefur því verið í nógu að snúast á þessu sérstaka ári og mikið reynt á okkar starfsfólk í þessum kjarasamningum. Heilt yfir hefur tekist vel til í mörgu á þessu ári.

Nú er lag að sveitarfélögin fari í framkvæmdir

Við áttum satt að segja von á meiri framkvæmdum á vegum ríkisins og sveitafélaga á þessu ári. Það hefur í raun aldrei verið mikilvægara en nú á samdráttartímum að stjórnvöld horfi til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun. Ljóst er að mörg verkefni koma þar til greina, bæði á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Ég tel afar mikilvægt að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst. Verulega hefur skort á viðhaldsframkvæmdir hjá hinu opinbera síðustu misserin og nú er lag að bregðast við uppsafnaðri þörf. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að greiðslur úr ríkissjóði skili mikilvægum, virðisaukandi verkefnum til samfélagsins.

Það er á svona tímum sem reynir á stjórnvöld að styðja við af fullu afli og ljóst er að enginn hörgull er af verðugum verkefnum sem ráðast þarf í. Umrædd endurgreiðsla í átakinu ,,Allir vinna” tekur einnig til framkvæmda og viðhalds á öllu húsnæði í eigu sveitarfélaga. Nú er því lag að sveitarfélögin fari í framkvæmdir sem hafa lengi setið á hakanum sem og horfi til nýrra verkefna sem mikilvægt er að fara í.

Afar mikilvægt er að hluti af iðnnáminu sé undir stjórn meistara

Iðnmenntun hefur verið í brennidepli á undanförum vikum, ekki hvað síst eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks, sem á dögunum fjallaði um iðnmenntun og stöðu iðnnema á Íslandi. Þar kom fram sú skoðun að færa ætti allt iðnnám inn í skólanna þannig að nemendur tækju fullnaðarpróf í skólanum. Jafnframt var rætt hvort að leggja ætti niður sveinsprófið eins og við þekkjum það. Þessi skoðun er ekki að koma fram í fyrsta skipti, heldur hefur henni verið haldið fram lengi af skólafólki og skólameisturum iðnskóla og verkmenntaskóla.

Í máli þeirra sem tjáðu sig í fréttaskýringaþættinum er þessi skoðun byggð á þeim rökum að meistarakerfið og sveinsprófið sem við þekkjum sé gamaldags og komi í veg fyrir nýliðun. Okkar skoðun hefur hins vegar verið sú að blanda af báðu sé mikilvæg því að ekki sé hægt að kenna alla þætti starfsins í skóla. Til marks um þetta þá varð sú breyting á kennaranámi á nýliðnu ári, að í stað stuttrar vinnustaðaheimsókna kennaranema þá hefur fimmta árinu í kennaranámi verið breytt í kandídatsár. Þannig eru kennaranemar á fimmta ári í starfsnámi á vettvangi. Þetta var gert eftir að í ljós kom að ekki hefur verið hægt að kenna kennaranemum heildstætt í stuttum vinnustaðaheimsóknum á námstímanum. Það skýtur því skökku við að sömu aðilar, mennta og menningarmálaráðuneytið, telji sig geta náð árangri í kennslu iðn- og verknáms í gegnum skólastofnun án aðkomu meistara á vettvangi vinnustaða.

Afar mikilvægt er að hluti af náminu sé undir stjórn meistara en ekki skólans. Skólarnir hafa ekki sýnt að þeir séu í stakk búnir til að þeir geti tekið iðnnámið að fullu inn í skólana. Hættan er sú að iðnnemar sem útskrifast, hafi ekki jafn mikla færni og ef þeir eru hjá meisturum, og þar með verði dregið úr gæðum iðnnáms. Sveinsprófið er samræmt próf sem byggir á að meta grunnfærni sem nemi á að hafa öðlast í námi sínu. Þess vegna er sérkennilegt að horft sé til þess að fella það niður, ekki síst þar sem að það hefur ekki verið álitamál innan okkar raða og í raun ekki ákall markaðarins að fella það niður.

Mikilvægt að taka þátt

Á undanförnum árum höfum við gert launa- og þjónustukönnun meðal félagsmanna sem félagsmenn hafa verið viljugir að svara. Þessa könnun notum við til þess að bæta þjónustu og vera með nýjustu launatölur á vinnumarkaði. Að þessu sinni var engin undantekning og birtum við niðurstöðu könnunarinnar í þessu fréttabréfi.

Ég vil nota tækifærið til að þakka ykkur fyrir þátttökuna og hvetja ykkur til að nota þær upplýsingar sem koma fram í henni. Við höfum einnig sent fyrirspurn til félagsmanna okkar um að fréttabréf FIT verði hér eftir rafrænt til að spara bæði pappírsnotkun og draga úr póstsendingum til félagsmanna.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Desember 2020