Hlaupið í skarðið í 21 ár

Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) var stofnaður árið 1976 í samstarfi ríkisins og allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Hálfrar aldar afmæli skólans nálgast óðfluga. Skólinn hefur starfrækir námsbraut í húsasmíði og hefur brautin verið starfandi allt frá stofnun.

Nemendum á námsbrautinni hefur fjölgað ört undanfarin ár og nú á haustönn eru 50 einstaklingar sem stunda nám í húsasmíði. Eftir áramót er reiknað með að nemendum fjölgi vegna þess að þá kemur inn lokaönn. Þeir nemar fara síðan í sveinspróf næsta vor/ sumar.

Gunnar Baldvin Valdimarsson húsasmíðameistari er einn af þremur kennurum í faggreinum húsasmíða við skólann. Það má segja að það sé nóg að gera á þeim bænum, þegar þarf að sinna 50 smíðanemum. „Ég leysti fyrst af hér í FS vorið 2000 þar sem fyrrum kennari minn var á leið í mánaðarfrí á vorönn. Hann hafði svo fengið ársleyfi um haustið 2000 og fram á vor 2001 og var hann jafnvel að hugsa um að hætta í framhaldi af því leyfi,“ segir Gunni Vald eins og hann er kallaður, sem sá fyrir sér að geta hlaupið í skarðið fyrir hann og sótti um starfið. Hann hefur verið þar síðan og er búinn að vera þar í 21 ár. Hann hafði reyndar áður sinnt stundakennslu í smíðum í Myllubakkaskóla og kunnað ágætlega við það.

„Nemendur eru oft frekar slappir að ná sér í vinnu við iðngreinina sína eftir fyrstu tvær annir í skóla en sumir ná því þó og maður finnur mun á þeim frá vori og fram á haust þegar þeir koma aftur að þeir hafa tengt ýmis mál.“ Atvinnulífið á Suðurnesjum hefur tekið nemunum vel en oft finnst honum að það sé ákeðin feimni við að taka nema á samning þegar þeir biðja um það. Gunni Vald heldur áfram „Allt fer þetta eftir ástandinu á markaðnum hvernig nemendunum gengur að komast að hjá fyrirtækjum“. Honum finnst samvinna við atvinnulífið á Suðurnesjum hefði mátt vera meiri en samvinnan sem hefur þó verið hefur gengið mjög vel að hans mati. Mörg fyrirtæki hafa í gegnum tíðina leitað til FS eftir starfsmönnum fyrir sinn rekstur og margar ráðningar hafa átt sér stað í gegnum húsasmíðabraut skólans.“

Spurður út í áhuga kvenna á náminu segir hann að sem sem betur fer hefur áhugi þeira aukist enda eigi stelpur ekki síður heima í þessum fögum en strákar. ,,Þeim mætti samt fjölga töluvert meir. Þeim stelpum sem hafa verið hér í FS hefur gengið mjög vel í náminu.“

Covid-19 hefur haft mikil áhrif á skólastarfið. „Covid hefur sannarlega sett strik í skólastarfið en hjá okkur hefur sem betur fer verið hægt að halda úti fullri verklegri kennslu og fagbóklegum áföngum hér í skólanum en þar var lögð sérstök áhersla á að halda því inni þegar þurfti að senda bóknámsnema í fjarnám. Það sem nemendur vantar sárlega er að hitta félagana og eiga góðar stundir með þeim hér í skólanum og hefur þreytu gætt hjá nemendum vegna þessa ástands,” segir hann.

Gunni Vald segir að það hafi orðið miklar breytingarnar á náminu í skólanum um 2004 þegar ný námskrá tók gildi. ,,Þá jókst verkleg kennsla mikið og var það til mikilla bóta. Í nýjustu útgáfu af námsskránni frá árinu 2018 í húsasmíði voru aðalega smávægilegar breytingar gerðar á milli áfanga og ýmsir smáagnúar lagfærðir. Samt gildir ekki sama námskrá fyrir alla skóla á landinu þar sem þeir hafa frjálsar hendur um að setja hana upp en flestir skólar nota sömu námskrá,“ segir Gunni Vald ákveðinn og heldur áfram. „Það er óformleg samvinna á milli skóla og bera kennarar stundum saman bækur sínar en kennarar í byggingagreinum hafa með sér félagsskap þar sem þeir hittast þegar tilefni er til og þörf er á. En það mætti reyndar vera meiri samvinna að mínu mati.“

Gunna Vald er mikið niðri fyrir og er honum námið hugleikið þegar hann segir: „Ég hef talað mikið fyrir því að nemandi sem hefur nám í iðngrein td. húsasmíði geti lokið námi í faginu í skólanum og tekið sveinspróf strax að loknu námi í skólanum en samræmt próf sé framkvæmt eins og í dag af aðilum úr atvinnulífinu. Þannig er prófið óháð því hvort nemandi hafi hlotið þjálfun eða kennslu í atvinnulífinu.“ Hann horfir þarna til þess að þegar erfitt er að fá vinnu í faginu og kreppir að nemendum þá geti þeir klárað námið frá skólanum en þeir hljóti svo réttindaskírteini þegar þeir hafa bæði lokið prófi úr skólanum (sveinsprófi) og ákeðnum vinnutíma á markaði (þjálfun á vinnustað) þegar betur árar á markaði.