Iðnaðarmenn á Suðurnesjum

Atvinnuleysi hefur aldrei verið meira hér á Suðurnesjum og gera má ráð fyrir að atvinnuleysi fari vel yfir 20% í desember 2020. Í þessu mikla atvinnuleysi sem er nú hér á Suðurnesjum, er það einna lægst hjá iðnaðarmönnum eða um 6%, ef miðað er við menntun þeirra sem skráðir eru atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun

Segja má að þetta hrun í ferðaþjónustunni sé fjórða stóra áfallið sem vinnumarkaðurinn á Suðurnesjum hefur orðið fyrir frá árinu 2006. Mikið áfall varð þegar varnarliðið yfirgaf flotastöðina á Miðnesheiði árið 2006, en á þeim tíma störfuðu þar beint eða óbeint um 1200 manns.

Þá hafa vonir um atvinnuuppbyggingu í Helguvík ekki ræst. Við þetta bættist svo bankahrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið, en atvinnuleysi á Suðurnesjum var nærri tvöfalt meira en landsmeðaltalið sagði til um frá árinu 2008 til ársins 2013.

Í þessum þrengingum sem hafa átt sér stað hér á Suðurnesjum hefur komið glögglega í ljós mikilvægi iðnmenntunar. Við brotthvarf varnarliðsins gekk þeim iðnaðarmönnum sem þar störfuðu á þeim tíma u.þ.b. 300 manns, nokkuð vel að fá önnur störf við hæfi. Staða iðnaðarmanna hefur því verið mun betri en margra annarra starfsstétta hér á Suðurnesjum í þessum þrengingum sem hafa dunið á vinnumarkaðinum á svæðinu.

Mikil fólksfjölgun og uppbygging hefur átt sér stað á Suðurnesjum og mikil þörf hefur verið fyrir iðnaðarmenn á svæðinu en frá 2004 til 2020 hefur íbúum á svæðinu fjölgað um rúmlega 65% á meðan landsmönnum hefur fjölgað um 26%. Vöxtur í ferðaþjónustu hefur haft gríðarleg áhrif á atvinnulífið þar sem flugstöðin er langstærsti vinnustaðurinn á svæðinu og þar af leiðandi hafði hrunið í ferðaþjónustuni mikil áhrif á vinnumarkaðinn hér á Suðurnesjum.

Atvinnulífið er mun fjölbreyttara hér á Suðurnesjum nú en fyrir brotthvarf varnarliðsins. Mikil vöntun hefur verið á iðnaðarmönnum á Suðurnesjum undanfarin ár og stórar framkvæmdir hér á svæðinu hafa að miklum hluta verið unnar af erlendum iðnaðarmönnum. Efla þarf verulega iðnmenntun hér á Suðurnesjum og fjölga iðnaðarmönnum, þar sem það kæmi til með að stuðla að minnkandi atvinnuleysi meðal ungs fólks á svæðinu og við værum þannig sjálfbær með okkar iðnaðarmenn.

Á myndinni er Ólafur S. Magnússon, þjónustufulltrúi Reykjanesbæ.

Greinin birtist í Fréttabréfi FIT í desember 2020.