Það er alltaf til gott fólk allstaðar

Viðtal við Vladyslav Penkovyi

Úkraína er annað stærsta ríki Evrópu að flatarmáli og öldum saman var það kallað matarkista Evrópu og á sér mjög merka sögu en fjölmörg vandamál steðja því miður nú að ríkinu. Fyrir 7 árum ákvað ungur Úkraínumaður, Vladyslav Penkovyi, að freista gæfunnar og flytja til frænku sinnar á Íslandi. Hann kemur frá bæ sem heitir Nikolaev í Suður-Úkraínu rétt hjá Odessa við Svartahafið og hann hefur samlagast íslenska samfélaginu ótrúlega hratt.

Það fyrsta sem vekur athygli er hversu mikið hann Vladyslav hefur áorkað á þessum stutta tíma. Hann er kallaður Valdi af vinum sínum og talar ágæta íslensku, er orðinn sveinn í húsasmíði og starfar sem slíkur hjá ÍAV.

Ég er forvitinn

Þegar við Valdi settumst niður og fórum að ræða hans sögu þá kom fljótlega upp spurningin um hvers vegna hann hafi flutt til Íslands. „Hvert land hefur sín vandamál sem verða ekki leyst svo auðveldlega og Úkraína hefur vissulega sín vandamál en ég var tilbúinn að nýta öll tækifæri til að kanna heiminn og gera mitt besta fyrir mig og verðandi fjölskyldu mína“ segir Valdi yfirvegaður og heldur áfram. Ég er forvitin manneskja að eðlisfari sem er alltaf opinn fyrir því að læra eitthvað nýtt. Mér finnst líka mjög áhugavert að læra og venjast nýrri menningu og veðurskilyrðum.

Spurður út í það hvernig það hafi verið að alast upp í Úkraínu svarar Valdi. „Mér fannst þetta frábærlega skemmtilegur tími, ég kláraði grunnskólann, framhaldsskólann og háskóla þar og þetta var frábær tími sem ég átti sem barn og unglingur. Þetta var minn besti tími.“ Þá kemur upp sú spurning hvað hann hafi viljað verða þegar hann var yngri „Ég hélt aldrei að ég yrði smiður eins og ég er í dag eða eitthvað svipað þessu fagi en ég hef alltaf verið forvitinn um vísindi, tölvuverkfræði og umhverfisverkfræði sem er í dag önnur gráða mín sem ég fékk í háskólanum í Úkraínu.“

Er mikill munur á fólkinu í þessum löndum var næsta spurning til Valda. „Mín skoðun er að fólk sé alls staðar mjög svipað. Allir eiga í vandræðum, eiga í baráttu, og svo á fólk einnig skemmtilegar og fallegar stundir í lífinu. Þannig tengjumst við og skiljum hvort annað jafnvel án þess að kunna tungumálið. Fólk í Úkraínu heimsækir t.d. oft kirkjuna sína og þá sérstaklega um páska og flestir aðhyllast Réttrúnaðarkirkjuna (Orthodox) og þar er mikil trúarhefð. „Það er mikill munur á Íslandi og Úkraínu, þar er t.d. töluð Úkraínska, en í austurhlutanum talar fólk einnig rússnesku. Þegar ég var í skóla fékk ég til dæmis tækifæri til að læra rússnesku líka“

Við höldum áfram á þessum nótum og förum að velta því fyrir okkur hvað hafi verið erfiðast við það að flytja til Íslands frá Úkraínu „Þessi spurning er erfið, sem í raun enginn getur svarað rétt“ segir Valdi hugsi og heldur áfram „ Almennt séð er það alltaf erfitt að yfirgefa fyrra líf sem þú hefur byggt upp í 20 ár og byrja síðan alveg upp á nýtt. Ég var 21 árs þegar ég kom hingað og þá þurfti ég að finna nýjar tengingar, kynnast, skilja fólk og láta það muna eftir þér. Það var ekki auðvelt en það er alltaf gott fólk alstaðar, eins og góðir kennarar, mentorar og síðast en ekki síst fæ ég stuðning frá frændfólkinu mínu sem býr hér,“ segir Valdi og maður dáist að því hvað hann er jákvæður, bjartsýnn og sýnir mikla þrautseigju.

Réttum stað á réttum tíma

Samtalið tók beygju og við fórum að ræða nám hans á Íslandi eftir að hann kom hingað til lands. „Fjölbrautaskóli Suðurnesja er frábær og áhugaverður skóli. Mjög ólíkur þeim skólunum sem ég hafði verið áður í. Þeir eru með ótrúlega góða kennara sem skilja mann og aðstoða. Ég er ekki viss um að ég komi til með að gleyma þeim fljótlega og ég vona að þeir gleymi mér ekki heldur“ segir hann brosandi og heldur svo áfram: „Ég ber mikla virðingu þeim og er þakklátur fyrir allt sem þeir gerðu fyrir mig. Námið var frábært og mjög sveigjanlegt og ég gat líka unnið og klárað samninginn minn til að verða smiður hægt og rólega og síðan að taka lokapróf. Námið tók mig 4 ár í skólanum og á 5. ári kláraði ég sveinsprófið mitt. Mér fannst þetta vera áhugaverður tími þarna því að við fengum tækifæri til að smíða næstum hvað sem er sem myndi passa í kennslurýmið og jafnvel sumarbústaðinn sem var þar fyrir utan. Ég held að ég hafi ekki séð neitt þessu líkt í öðrum skólum sem ég hef gengið í“ sagði Valdi og fannst greinilega gaman að rifja upp veru sína í FS.

Hvernig var að fá námssamning fyrir þig? „Reyndar var það ekki erfitt, sem betur fer, þökk sé kennaranum mínum og vini, honum Róbert, þetta var furðu auðvelt fyrir mig en ég er viss um að það hafi verið erfitt fyrir suma. Sennilega var ég á réttum stað á réttum tíma.“

Valdi byrjaði að vinna hjá Íslenskum aðalverktökum í byrjun síðasta árs en hafði áður unnið hjá TSA í Reykjanesbæ.“ Vinnan er frábær, ég reyni að gera mitt besta allan tímann. Fólkið í kringum mig er æðislegt og skemmtilegt, það er alltaf mikilvægt að hafa gaman í vinnunni.“

Þetta er bara rétt að byrja

Hvað með framtíðina, hvaða plön hefur þú? „Ég gæti byrjað að læra arkitektúr eða vinna sem verkfræðingur, sem væri næsta skref á ferlinum áður en ég uppgötva eitthvað nýtt. Flytja kannski til annars lands eða búa hér til æviloka. Kannski að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Mér finnst gaman að búa hér. Möguleikarnir eru svo miklir. Ég tel að þetta sé bara rétt að byrja hjá mér.“

Það er svo sannaralega hægt að taka undir það hjá Valda en vonandi fáum við að halda í hann sem lengst hér á landi. Að lokum spurðum við þennan unga og hressa mann hvort hann hefði tíma fyrir áhugamál. „Já já, ég fylgist með íþróttum. Finnst gott að hreyfa mig, spila tennis og fara í sund, svo æfi ég heilan með að spila skák. Eins er ég með smá handavinnu, sérsmíða hluti úr tré og allskonar efni. Við óskum Vladyslav Penkovyi velfarnaðar í hverju sem hann á eftir að taka sér fyrir hendur því eins og hann segir „möguleikarnir eru svo miklir.“

Birtist í Fréttabréfi FIT í desember 2020.