„Af hverju er það svo sjálfsagt að ég tali ekki íslensku af því að ég er með erlent nafn“

Viðtal við Moniku Ewu Orlowsk

Monika Ewa Orlowska heitir ung kona sem flutti aðeins þriggja ára gömul með systur sinni og einstæðri móður frá Póllandi strax eftir fall kommúnismans í Austur Evrópu. Þetta er ein af mörg þúsundum sögum um hetjulegra baráttu ungrar konu sem flytur með börnin sín til annars lands í leit að nýju og betra lífi.

Okkur langaði að kynnast örlítið henni Moniku Ewu eða Monsa eins og hún er kölluð. Hún býr í Kjósinni ásamt börnum sínum og manni. Þegar við ræddum við hana fyrst þurfti aðeins að sannfæra hana um að það væri sniðug hugmynd að koma í viðtal en síðan samþykkti hún það og ákvað að svara spurningum okkar. Þetta er mjög stutt útgáfa af hennar sögu.

Allir hafa langanir, þrár og draum

Fyrst viljum við vita hvað varð þess valdandi að hún kom til Íslands, Monsa hugsaði sig vel um og sagði svo „Þetta voru mjög erfiðir tímar, strax eftir kommúnisman. Móðir mín, sem var þá nýskilin, flutti með okkur systurnar í leit að nýju og betra lífi. Hún er algjör hetja, þetta hefur ekki verið auðvelt fyrir hana en ég verð henni ævinlega þakklát“ segir hún alvarleg í bragði og heldur svo áfram „Ég fæddist í Gdansk, hafnarborg Póllands, en man voða lítið eftir fyrstu árunum mínum.

Óljósar en hlýjar minningar af nánustu fjölskyldu, umhverfinu og leikskólanum.“ Spurð út í það hvort hún muni eitthvað eftir því þegar hún flutti með móðir sinni og systir til Íslands segir Monsa „Ég flutti til Íslands 1992 þá þriggja ára gömul og ég man mjög mikið, miðað við hvað ég var ung. Það fyrsta sem skýtur upp í kollinn, er fegurðin. Þessi fallega náttúra, fjöllin og víðáttan.“

Og hún heldur áfram „Held að það sé meðal annars ástæðan fyrir því að Íslendingar eru með svo stóran „presense” ef ég leyfi mér að sletta. Við getum allt sem við tökum okkur fyrir hendur „Ísland er stórasta land í heimi!” ef ég vitna í hana Dorrit.“ En þegar þú ert flutt til Íslands, hvað er þá það erfiðast við þann flutning „Það eina sem ég man eftir er að mér fannst erfitt, náttúrulega fyrir utan það að geta ekki hitt ættingja, var að skilja ekki tungumálið. Fólk var að tala við mig en ég bara skildi ekki orð og gat ekki tjáð mig. Sem betur fer eru börn gædd þeim eiginleikum að vera eins og svampar þannig að ég var enga stund að læra íslensku,“ segir Monsa.

Spurð út í það hvernig það hafi verið að alast upp með annan fótinn í pólskum siðum og hefðum og hinn í íslenskum, svarar hún „Það var alveg hreint frábært, algjör forréttindi. Þetta er skemmtilegur kokteill af allskonar siðum og hefðum, fallegum og jafnvel fyndnum, sem víkkuðu alveg klárlega sjóndeildarhringinn. Oft drógust forvitnir vinir inn í þetta sem skapaði fleiri fallegar minningar.“

Í framhaldi spurðum við Monsu hvort hún finni stóran mun á fólki frá Pólandi og Íslandi, svara hún „Nei, í grunninn held ég að við séum öll eins. Allir hafa langanir, þrár og drauma. Það vilja allir fá viðurkenningu og skilning, svo leynast alltaf svartir sauðir inn á milli. Ég hef samt upplifað örlítinn mun á kúltúr, ég fæ það stundum á tilfinninguna að Ísland sé pínu eins og unglingur Evrópu. Ung þjóð, full af orku, ófeimin, kemur sér beint að efninu í stað þess að teygja einhverja lopa. Pólverjar eru aftur á móti aðeins varkárri í samræðum og þar t.d. þekkist ekki að kalla fólk bara fornafni nema það sé einhver mjög náinn manni. Maður notar alltaf „frú“ eða „herra“.

En nafnið Monsa, hvernig kom það til „Þegar ég var að læra leiklist byrjaði einhver að kalla mig Monsu og það hefur fests við mig. Ef ég vil vera formleg er það Monika Ewa annars yfirleitt bara Monsa.“

Ólýsanleg tilfinning

Við ákveðum að snúa okkur að öðru og viljum forvitnast hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. „Ég hef alla tíð verið listamaður og náttúrubarn. Mig langaði að verða leikkona, fjöllistarkona og gera eitthvað tengt garðyrkju. Það má eiginlega segja að ég hafi látið þá drauma rætast. Ég er með einhvern grunn í myndlist, útskrifaðist af leiklistarbraut Kvikmyndaskólans 2013 og hef tekið þátt í ýmsum verkefnum tengdum listum og kvikmyndagerð. Þegar ég átti von á mínu öðru barni ákvað ég þó að draga mig aðeins til baka og gefa fjölskyldunni meiri tíma. Þá fann ég að nú væri kominn tími til að láta annan draum rætast og fór að læra og starfa við skrúðgarðyrkju,“ segir Monika Ewa og heldur áfram með blik í auga. „Það var bara ólýsanleg tilfinning sem helltist yfir mig þegar ég gekk inn í garðskálann í fyrsta skipti. Ég hugsaði vá þetta er eins og „Hogwarts garðyrkjunnar”.

Hvert sem ég leit var eitthvað grænt, eitthvað líf, eitthvað spennandi og dularfullt. Svo hitti ég nokkra samnemendur og deildarstjórann minn. Þau tóku öll svo vel og hlýlega á móti mér, það var þá sem að ég vissi að hér ætti ég heima.“

Þetta var augljóslega efni sem kveikir í Moniku og hún heldur áfram að tala um námið í skrúðgarðyrkju sem kennt er á Reykjum í Ölfusi: „Námið er ótrúlega skemmtilegt og áhugavert en á sama tíma krefjandi. Nám er vinna, það er bara þannig og þú færð út úr því það sem þú leggur í það. Það hefur ýmislegt gengið á með skólann að undanförnu en þegar kemur að náminu sjálfu erum við mjög heppin með kennara og allt þetta yndislega fólk þarna, starfsmenn og gestakennarar. Það eru allir svo fróðir og hjálpsamir.“ segir hún uppnumin.

Möguleikarnir eru í raun endalausir

Það var ekki hægt að stoppa að ræða um skrúðgarðyrkjuna og okkur langaði að forvitnast um hvað þýðingu það muni hafa fyrir hana þegar hún klárar að verða sveinn í skrúðgarðyrkju. „Vá, góð spurning. Það þýðir að ég gat þetta! Blóð, sviti og tár. Haha. Nei, en svona spauglaust þá þýðir það að ég get kallað mig Skrúðgarðyrkjufræðing. Það þýðir að ég er búin að læra skrúðgarðyrkju og veit hvað ég syng, þó maður sé nú alltaf að læra meira og bæta við sig þekkingu, allt sitt líf. Það þýðir að draumurinn minn rættist, ég hef meiri skilning á þessu græna, gráa og öllu þar í kring auk þess sem að fleiri dyr hafa opnast.“

En í framtíðinni, hvar sérðu þig eftir 10 ár. „Kannski verð ég áfram í minni núverandi vinnu, kannski fer ég að læra landslagsarkitektúr eða læt annan draum rætast og fer að hanna og búa til náttúruleg leiksvæði fyrir börn eða hlaða torf. Kannski næ ég að blanda saman listum, sköpun og garðyrkju. Möguleikarnir eru í raun endalausir og ég hef mjög margar hugmyndir. Held það sé alltaf best að hafa einhverja stefnu en vera opin fyrir tækifærum.

Nú ákváðum við að spyrja út í alvarlegri mál eins og fordóma, hefur Monika orðið var við fordóma. „Já já. Ég fann mikið fyrir því þegar ég var barn, stríðni í skóla og svona, en get ekki sagt að ég upplifi mikla fordóma í minn garð í dag. Má samt til með að nefna það að mér finnst svakalega dónalegt þegar fólk hringir í mig til að selja mér eitthvað eða bjóða mér að taka þátt í könnun og byrjar símtalið á að spyrja: „Do you speak english…” Þá langar mig bara að skella á. Af hverju er það svo sjálfsagt að ég tali ekki íslensku af því að ég er með erlent nafn?“ segir hún alvarleg í bragði.

Elskar að leika

Monika Ewa starfar hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur í Fossvogi og segist vera mjög ánægð þar. „Ég vinn við það sem ég er að læra og mér þykir mjög vænt um vinnustaðinn minn. Það er stefnan að útskrifast vorið 2022. Vinnan er nokkuð fjölbreytt og ég er mjög heppin bæði með kollega mína og yfirmann. Allt frábært fólk og gott að vinna með þeim.

Að lokum spyrjum við um áhugamálin hennar „Mér finnst mjög gaman að lesa, aðallega eitthvað fræðandi, teikna, skrifa og í raun vekur flest allt sem tengist listum áhuga.“

Og hún heldur áfram með ákafa „Að ég tali ekki um kvikmyndaleik, því það er meiri ástríða og vinna og að sjálfsögðu leiklist, kvikmyndir og leikhús. Ég elska að leika og hef alltaf gert. Það er líka gaman að horfa á aðra leikara og stúdera hvað þeir eru að vinna með. Finnst líka áhugavert að lesa í kvikmyndir. Pæla í táknfræðinni, myndrænu frásögninni og reyna að setja mig inn í hugarheim leikstjórans. Stundum er þetta samt alveg óþolandi, maður getur ekki alveg lifað sig inn í myndirnar og þættina því maður er svo upptekinn af þeirri vinnu sem er á bak við,“ segir hún skellihlæjandi.

Loka loka spurningin til hennar Moniku Ewu Orlowsku er; ert þú íslenskur ríkisborgari? „Já heldur betur.“ Því miður þurfum við að ljúka þessu skemmtilega samtali við manneskju sem Ísland er svo heppið að eiga.

Birtist í fréttabréfi FIT í febrúar 2021.