Alveg ljóst að skortur er á húsnæði fyrir ungt fólk

Hilmar Harðarson formaður

Sú launahækkun sem samið var um í síðustu kjarasamningum, kemur almennt til framkvæmda 1. febrúar, nema hjá þeim sem eru á fyrirfram greiddum launum. Þeir sem eru á fyrirframgreiddum launum ættu að vera búnir að fá umsamdar hækkanir. Ég tel að við getum gengið nokkuð sátt frá borði í þessari lotu. Þrátt fyrir að kjarabarátta hafi hvorki upphaf né endi.

Okkar fólk hefur staðið sig mjög vel í þeirri vinnu sem hefur farið fram við gerð kjarasamninga og útfærslu þeirra. Það er alltaf talsvert álag sem fylgir þeirri vinnu enda mikið í húfi. Það reynir verulega á okkur öll ef árangur á að nást í kjarasamningum, bæði þá sem hafa forystu í samningaviðræðunum og ekki síður á félagsmennina á vinnustöðunum.

Markmiðið er ávalt það sama: að ná sem bestum árangri varðandi starfskjör og starfsskilyrði fyrir okkar fólk. Vinna við útfærslu á vinnutímastyttingu er langt kominn í mörgum fyrirtækjum og stofnunum og bindum við miklar vonir við að sú vegferð bæti starfsskilyrði félagsmanna.

Lögðum mikla áherslu á átakið

„Allir vinna” Covid – 19 hefur haft gríðaleg samfélagsleg áhrif sem ekki síst kemur harkalega niður á atvinnulífinu og stöðu launamanna. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi þrátt fyrir Covid-19. Ríkisstjórnin greip til margvíslegra aðgerða strax í upphafi farsóttarinnar sem herjað hefur á okkur. Margar þessara aðgerða voru vel heppnaðar, svo sem hlutabótaleiðin og lenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Við lögðum mikla áherslu á að horft yrði til þess að framlengja tímabundna hækkun á endurgreiðslum virðisaukaskatts, sem er verkefni sem gengur undir nafninu „Allir vinna” enda sé það atvinnuskapandi og mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum. Því ber að fagna að orðið var við því og samþykkt var að hækka tímabundið endurgreiðslu virðisaukaskatts, úr 60% í 100%.

Þetta er meðal annars hluti þeirra ráðstafana sem gripið var til í því skyni að bregðast við efnahagsástandinu af völdum kórónuveirunnar Endurgreiðslan er af vinnu manna við íbúðarhúsnæði sem veitt er á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021. Heimild til endurgreiðslu verður jafnframt víðtækari á þessu tímabili en áður og tekur m.a. til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og bílaviðgerða.

Við erum sammála megin forsendum þessa verkefnis, að það sé öllum til hagsbóta að leitað sé til fagmanna hvort sem verkefnin séu stór eða lítil. Verkefnið „Allir vinna” hefur skilað okkar félagsmönnum aukinni vinnu og verkefnum á þessum erfiðu tímum. Á sama tíma lækkar átakið kostnað almennings en það er mikilvægt að hann geti leitað til fagmanna varðandi byggingarframkvæmdir og bílaviðgerðir og hins vegar verndar það mikilvæg störf í iðngreinum.

Þörf á að ríki og sveitarfélög spýti í lófana

Það er þó ljóst að það fjárfestingarátak sem ríkisstjórnin boðaði, hefur ekki komið að fullu fram. Því er mikilvægt að meiri slagkraftur verði settur í þær framkvæmdir á komandi ári. Ríki og sveitarfélög þurfa að spýta verulega í lófana eins og þau lofuðu. Það hefur í raun aldrei verið mikilvægara en nú á samdráttartímum að stjórnvöld horfi til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun. Ljóst er að mörg verkefni koma þar til greina, bæði á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar.

Þá er einnig alveg ljóst að skortur er á húsnæði fyrir ungt fólk. Það er mikil þörf á litlum eignum á markaðinn sem eykur möguleika ungs fólks til að koma sér þaki yfir höfuðið. Það þarf að byggja nýjar og minni íbúðir sem eru praktískar og ódýrari í kaupum og rekstri. Hér eru augljóslega mörg tækifæri í byggingariðnaðinum.

Skortur á viðhaldsframkvæmdum

Verulega hefur skort á viðhaldsframkvæmdir hjá hinu opinbera síðustu misserin og nú er lag að bregðast við uppsafnaðri þörf. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að greiðslur úr ríkissjóði skili mikilvægum, virðisaukandi verkefnum til samfélagsins. Þá er augljóslega tækifæri fyrir sveitarfélögin að nýta sér núna umrædda endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Til lengri tíma litið felast tækifæri í því að horfa til nýsköpunar og hvernig nýta megi hana til frekari virðisauka fyrir íslenskt samfélag.

Næstu misserin skiptir þó öllu máli að gefa í, hvað varðar framkvæmdir hjá hinu opinbera, hvort sem það er ríkisvaldið eða sveitarfélög. Það er til hagsbóta fyrir okkur öll að fá aukna innspýtingu í íslenskt atvinnulíf sem fyrst á nýju ári. Það er ekki eftir neinu að bíða og ég vil sjá framkvæmdir hefjast nú sem allra fyrst. Það er einnig mikilvægt að erlendir iðnaðarmenn, sem hingað til lands flytja, njóti fullra réttinda. Margir þessara erlendu iðnaðarmanna hafa búið hér á landi lengi. Við þurfum að hlúa að þeim varðandi launamál og önnur réttindi.

Erlendir iðnaðarmenn með viðurkennd starfsréttindi frá heimalandi sínu til iðnaðarmannastarfa, eiga fullan rétt á að falla undir kjarasamninga iðnaðarmanna og þeirra yfirborgana sem eru á íslenskum vinnumarkaði. Sinni þeir störfum sem falla undir löggilda iðngrein. Við horfum vonandi fram á betri tíma.

Ég hlakka mikið til að geta heimsótt ykkur á vinnustöðum og jafnframt að félagsmenn geti heimsótt okkur á skrifstofu FIT. Þrátt fyrir alla tæknina og fjarfundina þá jafnast samt ekkert á við það að hitta fólk og eiga eðlileg samskipti augliti til auglitis. Við horfum bjartsýn á árið og vonandi veður allt eðlilegt aftur þegar líður á árið og innan skamms hækkar sól og lífið kemst nær fyrra horfi.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Febrúar 2021