Viðhorf, reynsla og opin umræða

Saga innflytjenda í stuttu máli

Þó að almennt sé talið að reynsla íslensku þjóðarinnar af fjölbreytileikanum, sem við höfum orðið vitni að síðustu árin, sé fremur nýtilkomin, er í raun langt síðan fólk fór að flytja til landsins, eins og Snorri Bergson gerir góða grein fyrir í bókinni Erlendur landshornalýður (2014).

Fjöldi landsmanna sem tilheyra hópi fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda er stöðugt að aukast. Frá árinu 2000 hefur fjöldi íbúa með annað heimatungumál en íslensku aukist úr 1,5% í 15% (Hagstofa Íslands, 2020). Efnahagsleg þróun og starfumhverfi á Íslandi gerir auknar kröfur um erlent vinnuafl sem hefur haft langvarandi áhrif á starfs- og námsumhverfi íslensks samfélags.

Í ljósi þessara samfélagsbreytinga er mikilvægt að skoða viðhorf og framkomu til einstaklinga sem eru að læra íslensku og fóta sig í íslensku samfélagi.

Móttaka, stefnumótun og hrunið

Innflytjendum tók að fjölga verulega þegar um síðustu aldamót en það var þó ekki fyrr en árið 2005 að Velferðarráðuneyti (þá Félagsmálaráðuneyti) gaf fyrst út skýrslu um móttöku og aðlögun nýrra Íslendinga þar sem opinber stefna í málefnum innflytjenda var mörkuð. Þessi skýrsla kom af stað ferli sem er enn í mótun.

Til að byrja með var áherslan á hvernig hægt væri að aðstoða innflytjendur við að aðlagast sem best íslensku samfélagi og frá upphafi hefur verið lögð áhersla á tungumálafærni og að erlent vinnuafl finni sig í lífi og starfi. Ábyrgðin á að vel tækist til var oftast á herðum aðkomufólksins frekar en að um hafi verið að ræða gagnkvæmni í þeim efnum. Svo kom hrunið og kreppa í kjölfarið sem gerði það að verkum að áherslur samfélags og ríkis voru aðrar, en á sama tíma fækkaði innflytjendum talsvert (Hagstofa Íslands, 2016).

Umræðan í samfélaginu og aðgerðir stjórnvalda

Á síðustu fimm árum sést töluverð breyting á samfélagslegri umræðu og aðgerðum stjórnvalda í málefnum innflytjenda, enda hafa aldrei verið fleiri innflytjendur búsettir og starfandi á Íslandi en í dag. Í kjölfarið er hægt að sjá breytingar á áherslum bæði stjórnvalda og á vinnumarkaðinum. Árið 2018 markaði tímamót í lagramma Íslands þegar samþykkt voru lög gegn mismunum á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna sem kváðu á um jafna meðferð á vinnumarkaði.

En af hverju eru þessar lagabreytingar mikilvægar? Sjá má á þessum sömu árum töluverðar breytingar í skýrslum og almennum greina skrifum ólíkra fagstétta hvað varðar atvinnuþátttöku og viðhorf Íslendinga gangvart nýjum íbúum. Greina má að umræða virðist farin að snúast um sameiginlegar skyldur innflytjenda og heimamanna til aðlögunar, eða gagnkvæma aðlögun eins og það er gjarnan kallað.

Aðlögun eða gagnkvæm aðlögun

Rannsóknir bæði hér á landi og erlendis hafa sýnt að aðlögun innflytjenda að nýjum samfélögum þar sem gert er ráð fyrir að þeir yfirgefi sínar hefðir, venjur og tungumál hefur langvarandi og neikvæð áhrif á líf þeirra. Tvennt spilar inn í þessa neikvæðu þróun í lífi einstaklings sem afsalar sér fyrri reynslu til þess að þóknast nýja samfélaginu. Bæði hefur þessi höfnun áhrif á heilsufar einstaklingsins og sálarlíf hans. En á sama tíma er alltaf hætta á að hversu mikið sem einstaklingurinn leggi sig fram, verði honum hafnað af hinu nýja samfélagi sem veldur því að hann upplifir sig í jaðarstöðu.

Við gagnkvæma aðlögun þurfa innflytjendur hvorki að loka á sína menningu og reynslu heldur bæta við í farteski sitt reynslu og menningu hins nýja heimalands. Slíkt skapar rými og jákvæða reynslu fyrir innflytjandann. Með sama hætti krefst gagnkvæm aðlögun að við gerum breytingar á móttökusamfélaginu. Með þessu er ekki átt við að móttökumenningin breytist eða umturnist til þess aðlagast nýjum einstaklingum eða samfélagshópum heldur er þessi breyting hæg, oft án þess að fólk sé meðvitað um hana, en á sama tíma er hún markviss og gefandi.

Svo dæmi sé tekið þá eru lagalegar breytingar og nýleg umfjöllun um mikilvægi þess að jafna stöðu innflytjenda á Íslandi merki um þessa gagnkvæmu aðlögun.

Tækifæri til að nota íslenskuna

Hluti af þessari aðlögun er tungumálanotkun og íslenskukennsla. Hér er vert að skoða tvö sjónarhorn þegar kemur að reynslu fullorðinna. Fyrir það fyrsta er aðgengi innflytjenda að íslenskunámi, hvort sem það er í skólum (þá er verið að hugsa til annarrar kynslóðar) eða í gegnum málanám fyrir fullorðna, mjög misjafnt. Hér er mikilvægt að skapa námsumhverfi sem er styðjandi og krefjandi til þess að nemendur geti aukið færni sína í tungumálinu.

Þetta umhverfi á ekki einungis að skapast í skólastofum heldur einnig á vinnustöðum og almennt í samfélaginu. Það er mikilvægt þegar verið er að læra nýtt tungumál að fólk fái að æfa sig málinu í hinu daglega lífi.

Íslenska sem samskiptatungumál

Mörg okkar eru daglega í samskiptum við innflytjendur, hvort sem það er á vinnustöðum, í verslunum, á veitingastöðum eða á öðrum vettvangi. Samskiptin geta verið mjög misjöfn og gengið misvel. Það er hér sem ábyrgð okkar er hvað mest. Eins og máltækið segir „æfingin skapar meistarann.“ Hvernig við tökum á móti, umgöngumst og venslumst innflytjendum hefur áhrif á tungumálakunnáttu og aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.

Mikilvægt er að við gefum þeim tækifæri til að æfa sig í íslensku, bæði með því að hvetja þá til að sækja hin fjölmörgu námskeið sem eru í boði en ekki er síður mikilvægt fyrir okkur að ávarpa innflytjendur á íslensku. Með því að byrja alltaf á því að ávarpa þau fyrst á íslensku erum við að skapa umhverfi sem gefur fólk færi á að velja sér samskiptatungumálið. Ef einstaklingurinn treystir sér ekki til að halda uppi samræðum á íslensku þá getur hann beðið um að við skiptum um tungumál. Með þessu sýnum við öðrum virðingu. Enda höfum við sjálf oft reynslu af því að reyna að gera okkur skiljanleg á öðru tungumáli. En ábyrgðinni lýkur ekki hér, heldur er mikilvægt að sýna þolinmæði og skilning þegar við eigum í samskiptum á íslensku við fólk sem á sér annað móðurmál; gefum fólki tíma og rými til þess að tjá sig án þess að grípa fram í fyrir því eða að leiðrétta strax villur í málfari.

Annars máls málfræðingar benda á að í tungumálnámi er mikilvægt að prófa sig áfram og fá rými til að gera mistök. Þetta er líkt og þegar við lærum fyrsta tungumálið, okkur er leyft að spreyta okkur og svo er svarað með því að endurtaka og leiðrétta.

Vingjarnlegri og ríkulegri staður á búa

Í lokin er mikilvægt að hafa í huga viðhorf okkar til þess sem er „framandi“. Það er okkur eðlislægt að sækjast eftir því að umgangast fólk sem er líkt okkur eða hefur reynslu sem er lík okkar eigin reynslu. Það er akkúrat í aðstæðum sem eru okkur „framandi“ eins og þegar við sjáum nöfn eða mat sem eru ólík því sem við höfum vanist sem upp vakna blendnar tilfinningar, jafnvel neikvæðar tilfinningar.

Í þessum aðstæðum er gott staldra við og ígrunda þessar tilfinningar og spyrja sig hvaðan þær koma. Hvaða reynsla liggur á bakvið þessar tilfinningar? Hvernig er hægt að vinna með þær á jákvæðan máta? Þegar það tekst verður heimurinn ekki einungis vingjarnlegri staður heldur einnig ríkulegri og skemmtilegri.

Brynja E. Halldórsdóttir Gudjonsson
Lektor í gagrýnum menntunarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Birtist í Fréttabréfi FIT í febrúar 2022