Mikilvægt er að átakið „Allir vinna” haldi áfram í óbreyttri mynd

Iðnaðarmenn vinna ekki í fjarvinnu!

rh object 6703

Það fer ekki framhjá neinum að landslagið allt er gjörbreytt eftir Covid-19 faraldurinn. Atvinnu- og menntalífið hefur tekið stökkbreytingu þar sem fólk vinnur og menntar sig í auknum mæli að heiman og mikil umræða er um það hjá atvinnurekendum að slíkt sé komið til að vera. Það á ekki við um okkur. Þetta eru líklega erfiðari tímar fyrir iðnaðarmenn en flestar aðrar stéttir, því iðnaðarmenn geta ekki unnið í fjarvinnu! Við getum ekki farið á Zoom eða Teams til að smíða, unnið við pípulagnir, lagt rafmagn eða gert við bíla. Fjöldi iðnaðarmanna og fyrirtæki hafa orðið fyrir miklu tekjutapi.

Átak á borð við „Allir vinna“ kom að einhverju leyti til móts við það tekjutap og sýndi sig að það virkaði. Þess vegna kom það flestum, ef ekki öllum, í opna skjöldu þegar fjárlög voru lögð fram, að ekki stendur til að viðhalda 100 % endurgreiðslu á virðisaukaskatti til verkkaupa, heldur færa það í fyrra horf. Það er sárgrætilegt að hætta því sem vel gengur og skilar raunverulegnum ávinningi fyrir bæði iðnaðarmenn og samfélagið allt.

Mikil örvun varð í hagkerfinu með „Allir vinna“ og við hvetjum stjórnvöld til að sýna svart á hvítu að þeim sé alvara og framlengja átakið á komandi ári.

Innantóm loforð um iðnnám

Fögur fyrirheit um eflingu iðn- og verknáms og stuðning við ungt fólk sem vill koma til starfa í iðngreinum, eru ekkert annað en innantómur loforðaflaumur. Vinnustaðarnámssjóður er óbreyttur á fjárlögum stjórnvalda og auk þess þurftu 800 nemendur frá að hverfa á síðasta skólaári og fengu ekki skólavist.

Sú tala sýnir svo ekki verður um villst að ungt fólk horfir í síauknum mæli til þeirra starfa sem felast í iðn og tæknigreinum og allir eru sammála um mikilvægi þeirra, mikilvægi endurnýjunar í greinunum og mikilvægi þess að jafnræðis sé gætt þegar kemur að námsvali. Því kemur það verulega á óvart að ekki sé bætt í þegar horft er til iðnnáms. Það þarf að fara í átak á þessu sviði og stjórnvöld þurfa að hysja upp um sig buxurnar og standa við stóru orðin.

Hársnyrtisveinar bætast í hópinn

Félagi iðn- og tæknigreina bættist góður liðsauki við nýlega þegar Félag hársnyrtisveina gekk til liðs við félagið. Sameiningin var samþykkt með yfirburðum hjá báðum félögum og það er okkur sönn ánægja að bjóða hársnyrtisveina velkomna í hópinn. Sameiningin er hagur beggja og stærra og öflugra stéttarfélag eykur ekki aðeins þjónustuna við félagsmenn, heldur stendur vörð um réttindi og kjör félagsmanna. Þetta er góð viðbót og við vitum að samstarfið og samvinnan á eftir að ganga vel um ókomin ár.

Launahækkanir og desemberuppbót

Kjaramálin eru sem fyrr einn allra mikilvægasti þáttur félagsins og forystumenn félagsins leggja nótt við dag til að tryggja sem best kjör og aðstæður fyrir alla félagsmenn. Því er rétt að minna á að frá og með áramótum hækka dagvinnulaun félagsmanna um 17.250 krónur á mánuði og taxtar um 25.000 krónur. Þá er desemberuppbót fyrir hvert almanaksár 96.000 krónur fyrir fullt starf og skal hún greiðast eigi síðar en 15. desember. Við hvetjum félagsmenn okkar til að ganga úr skugga um að við þetta sé staðið. Í þessu sambandi má sérstaklega benda á árlega kjarakönnun félagsins í þessu blaði og bendum félagsmönnum á að nýta sér þær upplýsingar í næsta launaviðtali.

Hátíðarkveðjur

Gott samstarf er oft lykillinn að árangri og það er óhætt að segja að góð samvinna sé á Stórhöfðanum milli iðnaðarmannafélaganna. Góður starfsandi og árangursrík samtöl hafa skilað sínu og fyrir það á að þakka. Ég vil nota tækifærið og óska ykkur, fyrir hönd stjórnar og starfsmanna, gleðilegra jóla og hamingjuríks komandi árs með kærum þökkum fyrir hið liðna.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Desember 2021