„Ég gefst ekki upp“
Viðtal við Garðar Grétarsson
„Ég greindist með hryggikt rösklega tvítugur. Verstur var ég á morgnana, ég fór að missa æ meira úr vinnu, þetta vatt upp á sig með árunum, vefjagigt fór líka að hrjá mig. Loks fór ég fór í þjónustu hjá VIRK sem ég hef nýlega lokið,“ segir Garðar Grétarsson, 28 ára iðnaðarmaður. Við sitjum saman í fallegri stofu í nýrri blokk í Kópavogi þar sem hann býr ásamt unnustu sinni Ellen Lind Sigurjónsdóttur.
„Í upphafi fann ég fyrst og fremst fyrir verkjum í hnjánum. Ég leitaði til læknis en það fannst aldrei neitt. En ég prófaði allt, því ég gefst ekki upp. Fór til sjúkraþjálfara og til kírópraktors. Hjá honum var ég í eitt og hálft ár og kom alltaf verri til baka. Sá maður er með gigt og hann nefndi loks við mig að þetta gæti hugsanlega verið gigt. Í framhaldi af því fór ég til gigtarlæknis og hann greindi mig með hryggigt. Ég fékk líftæknilyf við gigtinni, það gjörbreytti öllu. Þá fór ég að geta mætt í vinnuna á hverjum degi. Ég lærði blikksmíði í Borgarholtsskóla og var í fullri vinnu meðan ég stundaði það nám. Það tók töluvert á en gaf mikið, ég hef unnið við rafvirkjun, járnsmíði og blikksmíði,“ segir Garðar.
„Ég hóf störf hjá Blikksmiðjunni Vík fyrir rétt rúmu ári. Snemma síðast liðið vor fór ég að finna fyrir öðruvísi verkjum. Ég fór til gigtarlæknis og hann greindi mig fyrst með liðagigt en nokkru síðar breytti hann greiningunni í vefjagigt.
Þetta var ekki gott ástand. Ég var að vinna við klæðningar á þökum. Skemmtileg vinna, ferskt loft og gott útsýni. En í sumar var ég kominn með það mikla verki að ég lagðist í sófann þegar ég kom heim og beinlínis skalf af verkjum. Þá fór ég að hafa verulegar áhyggjur. Ég reyndi að gera það sem ég gat, fór í sánabað, aftur til kírópraktúrsins, í sund og í sjúkraþjálfun. Best reyndist mér infrarauði sánaklefinn. Ef ég sat þar inni í 40 mínútur þá gat ég mætt í vinnuna næsta dag og verið nokkuð góður í svona fjóra klukkutíma. Þegar ég flyt í stærra húsnæði þá ætla ég að fá mér infrarauðan sánaklefa og heitan og kaldan pott,“ segir Garðar og brosir.
Fann fyrir fordómum gagnvart VIRK
Hvenær varðst þú óvinnufær?
„Í haust áttaði ég mig á því að ég gat ekki unnið – eftir hádegi var ég búinn að vera. Ég fór til heimilislæknis og hann benti mér á VIRK sem möguleika, bauðst til að sækja um fyrir mig. Ég hafði ekki áður heyrt um VIRK og átti ekki mikinn veikindarétt.
Mér fannst svolítið óþægilegt og fann fyrir fordómum gagnvart því að leita til VIRK en ég gat bara ekki meira – ég varð eitthvað að gera. Það leið stuttur tími þar til ég fékk samþykki fyrir að komast í þjónustu hjá VIRK. Gigtarlæknirinn lét mig fá veikindavottorð og sagði mér að ég yrði að hætta að vinna. Ég ræddi við vinnuveitandann og við tókum sameiginlega ákvörðun um að ég myndi hætta vegna veikinda. Ég hafði svo samband við FIT – Félag iðnog tæknigreina. Þar var mér mjög vel tekið. Í ljós kom að af því að ég sagði upp vegna veikinda þá átti ég inni fjögurra mánaða veikindaleyfi hjá stéttarfélaginu á fullum launum. Þetta vissi ég ekki en hjálpaði mér mjög mikið – gaf mér tíma til að átta mig aðeins á hvað ég vildi gera.“
Fannst þér samstarfsmenn þínir hafa skilning á þessu ástandi?
„Þeir yngri höfðu það og einn af eldri mönnunum, sem átti konu sem var með gigt. Eldri kallarnir sögðu „Maður verður bara að hrista svona af sér, þrauka bara.“ Einn sagði: „Ég gat ekki labbað stundum, en ég bara mætti.“ Þeir höfðu farið þetta á hnefanum, mættu kannski klukkan sex að morgni og unnu til tíu á kvöldin. Svona viðhorf er frekar ríkjandi í eldri aldurshópnum. Það er mjög mikill munur á því að vinna með eldri mönnum en ungum að þessu leyti. Þetta er þó auðvitað ekki algilt. Ég hugsaði með mér: „Hvernig ætli ég verði þá þegar ég er orðinn sextugur?“ Líf margra svona manna er ekkert nema vinna. En ég er ungur og mig langar til að fá eitthvað annað út úr lífinu heldur en bara að vinna. Ég fór svo til ráðgjafa hjá VIRK.“
Hafðir þú einhverja hugmynd sjálfur um hvers konar endurhæfingaráætlun þú vildir leggja upp með?
„Nei. Ég sá eftir starfinu mínu, ég hafði verið að vinna við það sem ég elskaði. Þetta var vel borgað og veitti frelsi. Blikksmiðjan Vík er besti vinnustaður sem ég hef unnið á. En þarna var ég farinn að vera dálítið þungur þótt ég sé að eðli til mjög jákvæð manneskja. Ráðgjafi hjá VIRK bauð mér að fara til sálfræðings. Fái ég eitthvert verkefni þá leysi ég það og fyrir mér þá var þetta verkefni, að ná heilsu. Ráðgjafinn benti mér líka á námskeið um vefjagigt sem ég ákvað að sækja. Ég vildi nýta mér allt sem gæti orðið mér til hjálpar. Ég var í heilsurækt og hef verið lengi, það hefur örugglega hjálpað mér töluvert. Maður þarf að stunda líkamsrækt þegar maður er með gigt, en finna hvað maður getur. Við vefjagigtina hrundi þol mitt og kraftur alveg niður í 10% miðað við að hafa áður verið 90%. Núna er ég að komast upp í 80% þrek. Hægt og rólega hef ég verið að byggja mig upp aftur.
Sálfræðingurinn náði að hjálpa mér heilmikið með því að spjalla við mig um gigtina. Það er gott að létta á sér þegar manni líður illa. Vefjagigtarnámskeiðið reyndist mér mjög vel. VIRK borgaði þetta allt og það skipti miklu máli. Einnig fór ég til Gigtarfélagsins og fékk vaxmeðferð fyrir hendur. Það hjálpaði dálítið.“ Hvernig var að hætta að vinna? „Það var mjög erfitt. Mér fannst ég vera hálfgerður aumingi. Smám saman varð mér ljóst að ég gæti ekki snúið aftur í svipaða vinnu og ég var í áður. Ég varð að sleppa tökunum. Ég er þó orðinn mikið betri en ég var í sumar. En ég mun aldrei losna við hryggiktina, ég verð alltaf að vera á líftæknilyfjum.“ Youtube þar getið þið skoðað vikulega upptöku hjá mér og fleirum ef þið viljið.“
VIRK hjálpaði mér mikið
Ertu sáttur við aðkomu VIRK að þínum málum?
„Já, VIRK hjálpaði mér mjög mikið. Ég setti mér það markmið að láta þessa fjóra mánuði sem ég var á launum duga til að endurhæfast og það tókst. Þér að segja þá er ég líka með ADHD sem vinnur dálítið á móti gigtinni. Ég er fullur af orku og langar til að gera heilmikið en gigtin setur manni ákveðin viðmið. Ég vil geta þess að unnusta mín veitti mér mikinn styrk á meðan á þessum erfiðleikum mínum stóð. Það var erfitt fyrir hana í sumar að sjá mig liggja í sófanum með öskrandi verki. Ellen hefur verið mín hægri hönd í öllu þessu ferli.“
Hvað skilaði þér bestum árangri í VIRK að þínu mati?
„Vefjagigtarnámskeiðið. Þangað komu meðal annars sálfræðingur, gigtarlæknir og sjúkraþjálfari. Maður þarf að skilja sjúkdóminn og þessir aðilar hjálpuðu mér til þess. Um leið ég og fór að skilja sjúkdóminn fór ég að geta unnið úr honum. Ég hefði ekki getað gert þetta sjálfur. Ég væri ennþá liggjandi í sófanum grátandi af verkjum ef ég hefði ekki farið til VIRK. Ráðgjafinn sleppti heldur ekki strax af mér hendinni, hann hefur hringt öðru hverju og spurt hvernig mér gangi og líði. Ef mér versnar aftur mun ég hafa samband við VIRK á ný.“
Hvað fannst þér erfiðast í þessu ferli fyrir utan verkina?
„Mér fannst svolítið erfitt þetta með vefjagigtina – fannst hún dálítill „kerlingasjúkdómur“. Vefjagigt er í miðtaugakerfinu og heilanum og veldur því stundum einskonar „lygaverkjum“. Mér er minnistæður fundur á námskeiðinu, þar sem aðstandendur voru með. Þeir voru beðnir að fara út og eftir sátu vefjagigtarsjúklingarnir – ég með tólf konum. Ég hugsaði þá: „Ég á ekki heima hér.“ – Þetta er sjúkdómur sem reynir á skilning fjölskyldu og vina. Mamma hringir í mig tvisvar í viku til að athuga hvernig mér líði.“
Hvernig gekk að finna vinnu aftur?
„Ég fór inn á vinnumiðlunina Alfreð og fór að sækja um alls konar störf. Ég fór í nokkur viðtöl til að athuga hvað menn hefðu að bjóða og hvernig væri borgað. Það endaði með að ég réði mig hjá Hótel Borg sem húsvörður í almennt viðhald. Það gefur alveg þokkaleg laun og það er gott að vera kominn í vinnu. Þetta er gamalt lúxushótel og að mörgu að dytta en þetta er skemmtilegt umhverfi. Það sem best er við þetta starf er að vinnutíminn er talsvert frjáls. Og þetta er fjölbreytileg vinna. Það þýðir að maður lærir ýmislegt nýtt. Maður þarf að fara inn á YouTube og athuga hvernig eigi að gera hitt og þetta – það er skemmtilegt.“
Hverjar eru framtíðaráætlanir þínar?
„Mig langar að klára iðnfræðinginn í Háskólanum í Reykjavík, þá fæ ég meistararéttindi. Svo jafnvel að fara í tæknifræði. Mig langar sem sagt að geta unnið bæði verklega og einnig við tölvu.“
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Fréttabréf FIT, febrúar 2021.