Lilja í hárinu

Viðtal við Lilju Sæmundsdóttur

Margt hefur á daga Lilju Kristbjargar Sæmundsdóttur, fyrrverandi formanns Félags hársnyrtisveina, drifið frá því að hún ólst upp á Ströndum og til þess að taka þátt í hárgreiðslusýningu í París. Hún hefur einnig aflað sér fjölbreyttrar reynslu í háriðninni á þeim 20 árum síðan hún lauk sveinsprófi. Lilja varð formaður félagsins árið 2012, þegar hún tók við formennsku af Súsönnu B. Vilhjálmsdóttur, og stýrði því til ársloka 2021.

Sagan Félag hársnyrtisveina, sem nú gengur inn í Félag iðn- og tæknigreina, er félag sem byggir á gömlum grunni. Saga háriðnaðar er löng, fjölbreytt og flókin, en hún hófst á Íslandi í byrjun 20. aldar. Tvær rakarstofur voru stofnaðar í Reykjavík árið 1901 en fyrsta hárgreiðslustofan var stofnuð árið 1912. Þessi þróun bar þess merki að íslenskt samfélag var að breytast úr sveitarsamfélagi í borgarsamfélag. Stærstur hluti íslendinga sem menntuðu sig í háriðn fyrstu árin sóttu sína menntun til Danmerkur.

Með lögum um iðnnám frá árinu 1927 var tekið fram að meisturum bæri að senda nema sína í iðnskóla. Það var svo árið 1932 sem fyrstu rakarasveinarnir útskrifuðust úr Iðnskólanum í Reykjavík en fyrstu hárgreiðslukonurnar útskrifuðust frá Iðnskólanum á Akureyri árið 1936. Síðan fjölgaði nemum ört og jafnhliða fjölgaði hárgreiðslu-og rakarastofum.

Mörg félög

Rakarafélag Reykjavíkur var stofnað fyrir tæpum 100 árum eða árið 1924 og því voru bæði meistarar og sveinar. Rakarasveinafélag Reykjavíkur var hins vegar stofnað 1927. Félag hárgreiðslukvenna var síðan stofnað 1931. Sveinafélag hárgreiðslusveina var stofnað 1939. Félag hárgreiðslu- og hárskerasveina var stofnað 13. nóvember 1969 en við það sameinuðust Rakarasveinafélag Reykjavíkur og Sveinafélag hárgreiðslukvenna undir einum hatti. Það fólk sem að því stóð vissi að með því að sameina félögin stæðu þau betur að vígi við að afla réttinda og við gerð kjarasamninga.

Eftir sameiningu iðngreinanna hárgreiðslu og hárskera var starfsheitinu breytt í núverandi heiti, hársnyrtir.  Nafninu, Félag hárgreiðslu-og hárskerasveina var því breytt og kallaðist félagið Félag hársnyrtisveina frá haustinu 1998.

Lilja

Eftir þessa nauðsynlegu söguskýringu, þá skulum við aftur fara í upphaf þessarar greinar og beina athyglinni að síðasta formanni hársnyrtisveina. Lagðar voru fyrir hana nokkrar spurninga. Lilja Kristbjörg kemur til dyranna sem skörungsleg kona en einnig brosmild, svo eftir er tekið. Fyrsta spurning til Lilju er auðvitað sú sem öll viðtöl byrja á.

Hverra manna ert þú? “Ég fæddist í Reykjavík í janúar 1975. Bjó fyrstu árin í Djúpavík á Ströndum. Foreldrar mínir fluttu til Reykjavíkur með mig og bræður mína þegar ég var þriggja ára. Við bjuggum í stutta stund í Breiðholtinu og svo í vesturbænum. Ég byrjaði í forskóla í Melaskóla en svo fluttum við í Hafnarfjörð sumarið 1981.“

Lilja tók sér nú smá málhvíld en í augum hennar sást að hún minntist liðins tíma með angurværð. „Snemma á vorin dvaldi ég hjá ömmu og afa í Djúpavíkum kringum sauðburðinn og kom svo yfirleitt ekki heim fyrr en í lok september eða eftir réttir. Að keyra traktor var ekkert tiltökumál fyrir 11 ára snót úr bænum á þessum tíma. Þegar ég var orðin 12 ára fékk ég loksins að fara á sjóinn með afa á grásleppu og stundum á færi, svo þegar það kom mikill afli inn þá gat maður fengið vinnu í saltfiski í þrónni. Aðalmálið var náttúrlega að geta flakað fisk skammlaust.“

Strákastelpa

Þegar þarna var komið var sá sem hlustaði á Lilju kominn sjálfur norður á Strandir í huganum með Lilju. „Í sveitinni var ég oft ein af strákunum og gaf þeim ekkert eftir, mótmælti náttúrulega harðlega þegar ég átti að sjá um uppvaskið með ömmu af því að ég var stelpa og lét strákana sjá um það. Það var ekkert mál, ég henti þeim bara inn í eldhús og hleypti þeim ekki út fyrr en þeir voru búnir. Ég var mjög ákveðin og stríðin, mátti náttúrulega allt af því að ég var eina stelpan og amma hló alltaf að mér þegar ég var búin að gera strákana pirraða og brjálaða og stundum hrædda.“

Það er sagt að snemma beygist krókurinn sem verða vill og ætli þetta lýsi Lilju ekki ágætlega, ákveðni, mátuleg stríðni og réttsýni. Hvað draum hafði þessi unga snót?

„Ég ætlaði mér að verða sálfræðingur þegar ég var lítil, var sannfærð um að ég gæti gert heiminn betri og lagað hugsanavillur hjá fólki. Hafði og hef litla þolinmæði fyrir óréttlæti og yfirgangi, svo nenni ég engu kjaftæði. Þegar ég varð unglingur fékk ég óbilandi áhuga á því hvað gerði menn að glæpamönnum. Í hvert sinn sem ég fékk tækifæri til að skrifa ritgerð í Lækjarskóla þá skrifaði ég um þetta málefni og vann heimildarvinnu á löggustöðinni hjá Gissa löggu, ég hringdi bara í hann og pantaði tíma og var alltaf velkomin.“

Hár

Enn….Lilja hugsar sig um smá stund og heldur svo áfram ákveðin. „En þegar ég hugsa mig um þá hafði ég mikla þörf fyrir að þvo á mér hárið þegar það var búið að vaska upp. Frá því að ég var eins og hálfs árs, þá fann ég leið, með allskonar upphækunum, ráðum og dáðum, að koma höfðinu undir krana í hárþvott, jafnvel ískalt“ Segir Lilja og er augljóslega skemmt og brosir með öllu andlitinu.

„Það er eiginlega tilviljun að ég lærði hársnyrtiiðn. Ég fór í Iðnskólann í Hafnarfirði eftir grunnskóla og var algjörlega týnd hvað ég vildi gera og verða. En mamma mín sá til þess að ég gæfist ekki upp og kom mér í Iðnskólann. Ég fór á almenna braut með vinkonu minni og við fengum kynningu á alls konar iðngreinum Þar kviknaði áhugi minn á hársnyrtiiðn og ég sótti um og komst inn. Mér gekk vel í náminu og fagið lá vel fyrir mér. Ég fór á samning strax eftir fyrstu önnina, en ég fékk ábendingu um að það vantaði nema á Hársnyrtistofuna Kristu í Kringlunni, ég fékk að koma í prufu hjá Hönnu Kristínu, og fékk samning. Krista var á þeim tíma ein af þeim stærstu með yfir 30 sarfsmenn og fjórir nemar á ári fóru í sveinsprófi. Ég tók burtfararpróf jólin 1994 og sveinspróf vorið 1995.“

Sveinn

Lilja hefur þann eiginleika að geta sagt skemmtilega frá og er góður sögumaður. „Eftir námið hélt ég áfram að vinna á Kristu sem sveinn, mér leið mjög vel þar. Ég var alltaf að keppa, vann t.d. Junior Intercoiffeur (alheimsssamtök hársnyrta) keppni hér heima og fékk að fara á stóra sviðið í París 22 ára gömul. Í framhaldinu tók ég að mér aðstoð við námskeiðshald, vildi alltaf vera þar sem voru nýjungar og læra meira og allskonar tækni í litum og klippingum. Ég fór síðan í meistaraskólann svona ef mig skildi langa að opna stofu, þó að það hafi aldrei verið planið. Ég fór að vinna hjá Halldóri Jónssyni hf. sem seldi hársnyrtivörur og var ég send í þjálfanir út um allan heim, og síðan starfaði hjá B-Pro sem er heildsala með hársnyrtivörur“.

Félagsstörf

En hvers vegna ákvað hún að gefa kost á sér að verða formaður Félags hársnyrtisveina? „Það var eiginlega bara tilviljun, ég var bara allt í öllu allsstaðar þegar það var eitthvað „hár”. Sá auglýstan aðalfund og mætti og gaf kost á mér í stjórn, en það gekk ekki eftir, þannig að ég fór bara að mæta á fundi þegar ég sá þá auglýsta og svo á einum aðalfundinum, þá tókst mér að verða varamaður í stjórn, rétt fyrir aldamótin, sem var bara fín leið til að kynna sér hlutina. Ég varð svo varaformaður árið 2004 og árið 2012 varð ég formaður.“

Þegar Lilja byrjar að ræða um málefni náms í háriðn þá lifnar hún öll við og verðu ákveðin á svip. „Námið hefur bara þróast ágætlega í gegnum tíðina, sérstaklega vel þegar það er samtal á milli atvinnulífsins og menntamálaráðuneytisnins. Það er nauðsynlegt að fara í gegnum námið reglulega og uppfæra þegar tíðarandinn breytist. Starfsgreinaráð snyrtigreina hefur í gegnum tíðina verið á tánum gagnvart náminu og endurskoðað hæfnikröfur starfsins þegar þurfa þykir. En það er eitthvað smá rof núna, því miður, þá er margt óljóst með reglugerðina sem nafna mín setti á og tók í gildi í ágúst í fyrra. Það verður bara að krossleggja putta og vona það besta.“

Það hefur verið mjög fróðlegt að ræða við Lilju og einnig finna hvað hún er lifandi, jákvæð og skemmtileg. Hvernig sérðu málin almennt þróast hjá fagfélögunum á Stórhöfða? „Bara mjög vel, saman erum við sterkari heild, það er hellingur af tækifærum sem felast í aukni samstarfi. Það er mikilvægt að horfa jákvætt á hlutina og þróast í takt við breytta tíma með þarfir félagsmanna í fyrirrúmi.

Umferðaróhapp vegna hárgreiðslu

Jafnvel skemmtilegustu samtöl taka enda en það er forvitnilegt að spyrja að lokum um persónuleg áhugamál og drauma. „Elda og borða góðan mat, líkamsrækt, ferðast, búa til óvissuferðir með vinum og bara hafa gaman….“ Lilja lygnir aftur augun og segir „ í húsinu mínu á Ítalíu sem ég á eftir að finna.“

Augu þess sem tekur þetta viðtal staðnæmdust við nýju hárgreiðsluna hennar og hefur á orði að það væri ómögulegt að vita raunverulegan hárlit kvenna. Lilja Kristbjörg skellihlær að þessari athugasemd og segir. „Ég hef sennilega litað hárið á mér í öllum regnbogans litum, fýla alls ekki að vera ljóshærð, ef ég geri það þá er ég búin að lita það dökkt aftur innan viku. Þegar ég var yngri þá var maður í skæru litunum og ég man einu sinni eftir því að hafa, nánast, ollið umferðaróhappi vegna hárgreiðslu sem fór aðeins fram úr sér.“

Birtist í fréttabréfi FIT í febrúar 2022.