Kærar þakkir fyrir þátttökuna!

Vinningshafar verða dregnir út í næstu viku

Kjarakönnun FIT lauk á mánudag. Könnunin var send þeim 4.758 félagsmönnum sem skráð hafa netfang eða farsímanúmer hjá félaginu. Til að gera langa sögu stutta fór þátttakan fram úr öllum væntingum. Hærra hlutfall félagsmanna hefur ekki tekið þátt í sambærilegum könnunum frá stofnun félagsins. Af þeirri staðreynd má ráða að áhugi á kjaramálum fer vaxandi innan félagsins.

Í kjarakönnun FIT var spurt um laun félagsmanna, aðbúnað þeirra á vinnustöðum, atvinnuöryggi, fjárhagsstöðu og viðhorf til yfirstandandi kjaraviðræðna, svo nokkur dæmi séu tekin. Alls svöruðu 1.513 félagsmenn könnuninni, eða liðlega þriðjungur þeirra sem fékk hana senda. Félagsmenn eiga heiður skilinn fyrir góðar viðtökur við könnuninni.

Nú tekur greiningarvinna við en niðurstöðurnar munu gefa stjórn Félags iðn- og tæknigreina góðar upplýsingar um laun félagsmanna og önnur kjaratengd málefni. Þær upplýsingar munu koma að góðum notum á komandi vikum og mánuðum en eins og kunnugt er stendur félagið nú í kjaraviðræðum.

Í næstu viku verða vinningshafar dregnir úr hópi þátttakanda. Haft verður beint samband við þá í kjölfarið auk þess sem nöfnin verða birt hér á heimasíðunni. Tveir heppnir þátttakendur fá helgardvöl að eigin vali í orlofshúsi félagsins (utan orlofstímabils). Þrír til viðbótar fá ferðaávísun að upphæð 30.000 kr. sem hægt er að nýta til kaupa á gistingu um allt land.