Kærkomnar kjarabætur

Pistill formanns vegna kjarasamninga

Hún var löng og ströng samningalotan sem endaði á því að fulltrúar iðnaðarmanna skrifuðu undir nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins í húsakynnum Ríkissáttasemjara á mánudag. Samningurinn er afrakstur stífra fundahalda okkar sem í nefndinni sitjum, bæði á milli deiluaðila og innan nefndarinnar en einnig með fulltrúum ríkisstjórnar Íslands.

Samningurinn, sem gildir til 31. janúar 2024, verður nú kynntur fyrir félagsmönnum FIT. Kynningu á honum má finna í þessu blaði. Samningurinn verður að því búnu lagður í dóm ykkar félagsmanna. Hann kveður á um kærkomnar kjarabætur, 6,75% hækkun launa og hækkun desember- og orlofsuppbóta svo eitthvað sé nefnt. Áherslan að þessu sinni var á prósentuhækkun en það er sú tegund launahækkunar sem kemur millitekjuhópunum best. Okkar fólk hefur setið eftir þegar að kaupmætti kemur og þess vegna er ánægjulegt að ná fram jafn mikilli hækkun launa og raun ber vitni. Það var komið að okkur.

Samningurinn veitir okkur gott svigrúm til að vinna að nýjum langtímasamningi þegar efnahagslegar aðstæður verða orðnar betri. Sú vinna er þegar hafin. Ég hefði ekki skrifað undir samninginn nema um væri að ræða ásættanlega niðurstöðu fyrir okkur. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur efni samningsins vel og taka þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn. Ég mæli heilshugar með samþykkt hans.

Metþátttaka í launakönnun

Þátttaka í launakönnun FIT, sem lögð var fyrir félagsmenn í haust og birt er í þessu blaði, hefur ekki verið meiri frá stofnun félagsins. Aldrei hefur hærra hlutfall félagsmanna tekið þátt. Niðurstöðurnar gefa félaginu sérstaklega góða yfirsýn yfir launakjör félagsmanna, vinnutíma þeirra og afstöðu til styttingar vinnuvikunnar, svo dæmi séu tekin. Ekki síst gefur könnunin félaginu góðar vísbendingar um hvernig FIT getur bætt þjónustu sína við félagsmenn. Góð þátttaka endurspeglar mikinn áhuga á starfsemi félagsins og er það afar ánægjulegt.

Það er hins vegar þungbært að sjá í könnuninni að ríflega fjórðungur félagsmanna hefur af fjárhagsástæðum þurft að fresta læknisheimsókn eða kaupum á lyfjum á undanförnum 12 mánuðum. Yfirgengilegar hækkanir á neysluvörum, gjaldskrárhækkanir hins opinbera, himinhá verðbólga, vaxtahækkanir og hærri álagning vel stæðra olíufélaga hefur sannarlega reynst heimilum landsins þungur biti. Það er þyngra en tárum taki að sjá fréttir um hækkanir á leikskólagjöldum, skólamáltíðum og sorphirðu sveitarfélaganna, svo dæmi séu tekin. Hið opinbera ætti miklu frekar að vera í fararbroddi við að kveða niður verðbólguna, sem liggur eins og mara á þjóðinni.

Upplýsingabylting

Í skoðanakönnunum undanfarinna ára hefur komið á daginn að hluti félagsmanna telur sig ekki þekkja réttindi sín hjá félaginu nægilega vel. Þessi hópur fer því miður hægt stækkandi. Við þessari þróun er glænýrri heimasíðu FIT ætlað að sporna. Á henni eru helstu efnisatriði kjarasamninga nú sett fram á myndrænan og aðgengilegan hátt.

Almenna reglan hjá stéttarfélögunum hefur verið sú að undirritaðir samningar eru skannaðir inn og settir hráir inn á síðurnar. Launþegar landsins hafa svo þurft að sækja skjalið, opna það með viðeigandi forriti, og „skrolla“ frá sér allt vit, ef þannig má að orði komast.

FIT hefur snúið baki við þessu fyrirkomulagi. Þegar smellt er á gildandi kjarasamning á vef FIT opnast yfirlitssíða yfir helstu atriði samningsins – þau atriði sem helst er spurt um. Þar má sjá yfirlit yfir launahækkanir kjarasamningsins, fjárhæð desember- og orlofsuppbóta, yfirvinnuprósentu og önnur lykilatriði í hverjum kjarasamningi. Þessi háttur verður viðhafður gagnvart öllum kjarasamningum sem undirritaðir verða í vetur og til frambúðar.

Nýja heimasíðan, sem hefur fengið sérstaklega góðar viðtökur, er frá grunni hönnuð með snjallsíma og -tæki í huga, í takt við breytt notkunarmynstur félagsmanna. Á meðal annarra nýjunga má nefna glæsilegt myndasafn, sem Rúnar Hreinsson ljósmyndari félagsins á veg og vanda af. Þar má sjá myndir frá útskriftum nýsveina, ferðum heldri manna félagsins, kröfugöngum og öðrum viðburðum sem tengjast FIT.

Á nýju vefsíðunni má skoða lista yfir alla þá sem lokið hafa sveinsprófi og panta vinnustaðaheimsókn frá félaginu, á einfaldan og þægilegan hátt. Undirritaður hvetur félagsmenn til að bóka fund með fulltrúum félagsins ef eitthvað á þeim brennur sem snýr að kjara- og/eða réttindamálum.

Kaldar kveðjur til sjóðfélaga

Þær voru kaldar kveðjurnar sem fjármálaráðherra sendi sjóðfélögum íslenskra lífeyrissjóða í haust þegar tilkynnt var að ÍL-sjóður fengi ekki meira fjármagn. Valkostirnir sem nefndir hafa verið eru að knýja sjóðinn í gjaldþrot eða ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur, sem að stærstum hluta eru lífeyrissjóðir, um uppgjör. Um er að ræða gífurlega hagsmuni fyrir íslenska sjóðfélaga og óboðlegt að því sé hótað að knýja sjóðinn í þrot. Lífeyrissjóðirnir eru einhuga um samstarf vegna þessa máls og munu reka það af fullum þunga.

Í þessu samhengi er mér ljúft og skylt að benda á grein í þessu blaði eftir Ólaf Sigurðsson, framkvæmdastjóra Birtu lífeyrissjóðs. Þar rekur hann afar athyglisverðar lagabreytingar sem verða um áramótin á lögum um lífeyrissjóði. Þær eru til þess fallnar að auka sveigjanleika og, með tíð og tíma, hækka lífeyrisgreiðslur sjóðfélaga. Fyrir þessum mikilvægu breytingum hefur verið barist um langt árabil. Óhætt er að skora á félagsmenn að kynna sér efni greinarinnar í þaula.

Framtíðin björt

Þó að kjaradeilur og glíman við ríkisvaldið geti verið þungbærar hindranir varpa þær ekki skugga á þá staðreynd að fjölgun hefur verið í hópi þeirra sem ljúka sveinsprófum. Ekki er vanþörf á enda er verkefnastaða iðnaðarmanna með allra besta móti og ljóst að stórir hópar eldri iðnaðarmanna eru að komast á aldur. Fulltrúar FIT hafa í fyrsta sinn þetta haustið tekið þátt í þremur útskriftum nýsveina. Þessar athafnir hafa verið til sóma, eins og myndirnar aftar í þessu blaði bera með sér, og ljóst að framtíðin er björt.

FIT býður þetta unga og efnilega iðnaðarfólk velkomið til starfa og hlakkar til samstarfs við það um ókomin ár.

Ómissandi félagsskapur

Í þessu blaði er meðal annars skemmtilegt viðtal við Lárus Lárusson blikksmíðameistara, sem mætir enn til vinnu sinnar, þótt áttræður sé, og tekur virkan þátt í félagsstarfi FIT. Hann fór á dögunum í sína þrettándu óvissuferð heldrimanna, á vegum félagsins. Þessar ferðir eru ómissandi þáttur í starfsemi félagsins og Lárus lýsir í viðtalinu vel hversu mikið þessi félagsskapur gefur þeim sem eru komnir á eftirlaunaaldur. Það er sannur heiður að fá gera sér glaðan dag með þessum skemmtilega hópi ár hvert og ég hvet ykkur til að lesa viðtalið við Lárus. FIT mun, venju samkvæmt, senda þátttakendum myndir úr ferðinni í þar til gerðri bók.

Nýtt starfsfólk

Í fréttabréfinu er einnig að finna viðtal við Þorstein Kristmundsson, sem meðal annars annast mælingar hjá félaginu og hefur í nokkur ár gegnt lykilhlutverki á skrifstofunni. Verkefni félagsins eru mörg, eins og Þorsteinn lýsir í viðtalinu, ekki síst þegar kjaraviðræður standa sem hæst og félagið stækkar jafn hratt og raun ber vitni. Það er þess vegna ánægjulegt að kynna til leiks tvo nýja starfsmenn félagsins, þau Karl Óttar Pétursson og Bergdísi Lindu Kjartansdóttur, sem kynnt verða félagsmönnum nánar þegar færi gefst. Ráðning þeirra er til þess fallin að efla þjónustu við félagsmenn og býð ég þau velkomin til starfa.

Hátíðirnar fara nú í hönd. Félag iðn- og tæknigreina óskar félagsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og þakkar fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Hilmar Harðarson formaður.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttabréfi FIT í desember 2022.