Orlofshúsabæklingurinn er kominn út

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á orlofshúsum félagsins í Skorradal

Orlofshúsabæklingur FIT fyrir árið 2023 er kominn út. Þar eru allir orlofskostir félagsins kynntir með myndarlegum hætti.

Sérstök athygli er vakin á því að umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á orlofshúsum félagsins í Skorradal. Myndir af þeim breytingum má sjá í Fréttabréfi FIT.  „Ég er bara þrælmontinn af þessu og ánægður með hvernig til tókst,“ segir málarameistarinn Georg Óskar Ólafsson, umsjónarmaður orlofshúsa hjá FIT í blaðinu. Annað húsið er tilbúið til útleigu en Georg stefnir á að ljúka uppgerð hins hússins þegar líður á febrúarmánuð. Fyrir vorið stendur svo til að klæða bæði húsin að utan.

Heitir pottar höfðu verið settir upp við bæði húsin fyrir ekki svo löngu auk þess sem veglegur stigi – mikið mannvirki að sögn Georgs – var reistur að efra húsinu. Við það batnaði aðgengi að húsinu til muna. Í vetur hefur Georg svo verið að gera upp húsin að innan. „Við mokuðum öllu út, öllum húsgögnum og húsbúnaði. Við uppfærðum eldhúsinnréttinguna; settum nýja borðplötu og vask. Það eru ný gólfefni í öllum rýmum allt er nýmálið. Baðherbergið var klætt að innan, með sérhönnuðum plötum fyrir slík rými, og nýr sturtuklefi og innrétting sett upp. Við endurnýjuðum öll húsgögn og annan búnað, allt frá vöfflu-járni að útigrilli,“ útskýrir Georg, sem naut aðstoðar smiðs við sum verkin – sem og aðstoðarmanns síns.

Hann bendir á að í húsunum hafi verið innsmíðuð rúm frá bernsku-árum þessara húsa og koja. Þau voru rifin út. „Húsin voru átta manna en eftir þessar breytingar eru í húsinu þrjú tvíbreið rúm. Þau eru því sex manna í dag en fólk getur svo komið með dýnur ef það vill bæta við,“ útskýrir hann. Heimilistækin í húsunum voru nýleg; ísskápur, uppþvottavél og eldavél en segja má að allt annað sé nú nýtt. Skipt var um gler í þeim gluggum sem tími var kominn á. „Þegar maður skoðar fyrirmyndirnar og ber þær saman við daginn í dag þá trúir maður varla að þetta hafi verið í útleigu.“