Sigurvegarar í pípulögnum og málaraiðn
Fjórir nemendur öttu kappi í pípulögnum í Laugardalshöll 16.-18. mars

Ezekiel Jakob Hansen, útskrifaður nemandi úr Tækniskólanum, bar sigur úr bítum í pípulögnum á Íslandsmótinu í iðn- og verkgreinum sem fram fór í Laugardalshöll um og fyrir helgi. Keppendur leystu verkefni sem kallaðist „Hitakerfi, fram- og bakrás“.
Verkefnið var unnið á timburvegg sem var tveir metrar á breidd og tveir á hæð. Keppendur lögðu stofnlögn fram- og bakrás frá og að mælagrind, einfalt hitaveitukerfi þar sem bakrásin, að notkun lokinni, fer í frárennslið. Inn á stofnlögnina var komið fyrir handklæðaofni sem nemendur beygðu sjálfir og smíðuðu.
Verkefnið sýnir brot af vinnu við hitakerfi sem pípulagningarmenn vinna við. Afrakstur nemendanna var metinn út frá málsetningum, suðu í tini, ásýnd, áferð, umgengni við vinnusvæðið og snyrtimennsku.
„Nemendur höfðu 18 tíma til að vinna verkið,“ sagði Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, umsjónarmaður keppninnar, þegar FIT heimsótti keppnisstað á fimmtudag. „Þetta eru þrír nýútskrifaðir sveinar og einn sem er á leið í sveinspróf. Þeir eru allir á sama aldri og svipað langt komnir,“ sagði Böðvar, sem hélt að þessu sinni utan um sína fjórðu keppni af þessum toga.
Ezekiel Jakob verður fulltrúi á Íslands á Euroskills.
Vatnsvirkinn, Vatn og veitur, TENGI og BYKO voru styrktaraðilar keppninnar í pípulögnum.
Keppni í málaraiðn
Þrír nemendur kepptu í málaraiðn. Það voru Hildur Magnúsd. Eyrunardóttir, Jóhann Árni Sigmarsson og Vilhjálmur Þór Olsen, öll úr Tækniskólanum. Nemendur máluðu skreytingu sem innihélt fjarvídd á tveggja metra vegg.
Hildur varð hlutskörpust og er því Íslandsmeistari í málaraiðn.
Styrktaraðilar keppni í málaraiðn voru BM Vallá, Álfaborg, BYKO, Húsasmiðjan, Hagi, Vörukaup og Danfoss.
Sigurvegarar á Minni framtíð, Íslandsmóti iðngreina 2023:
- Bakaraiðn, Finnur Guðberg Ívarsson, Bláa Lónið
- Bifreiðasmíði, Sólborg Birta Steinbergsdóttir, Borgarholtsskóli
- Bílamálun, Sara Gígja Geirsdóttir, Borgarholtsskóli
- Forritun, Bjartur Sigurjónsson,Tækniskólinn
- Grafísk miðlun, Olivier Piotr Lis, Tækniskólinn
- Gull- og silfursmíði,Benedikt Axelsson, Tækniskólinn
- Húsasmíði,Van Huy Nguyen,Tækniskólinn
- Kjötiðn, Björn Mikael Karelsson, Hótel og veitingaskólinn
- Fataiðn,Vilborg Magnúsdóttir,Tækniskólinn
- Málaraiðn,Hildur Magnúsd. Eyrúnardóttir,Tækniskólinn
- Málmsuða,Hafþór Karl Barkarson,VMA
- Múraraiðn,Arnar Freyr Guðmundsson,Tækniskólinn
- Pípulagnir,Ezekiel Jakob Hansen,Tækniskólinn (Útskrifaður)
- Rafeindavirkjun,Hlynur Karlsson,Tækniskólinn
- Rafvirkjun,Gunnar Guðmundsson, Tækniskólinn
- Snyrtifræði, Kristín Ýr Gísladóttir, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
- Liðakeppni í Vefþróun, Gabríel Bergmann Friðriksson, Tækniskólinn, Shishir Jayendra Patel, Tækniskólinn og Sebastian Mateusz Lenart, Tækniskólinn.
- Veggfóðrun og dúkalögn, Magnús Breki Þórarinsson, Tækniskólinn
- Framreiðsla, Finnur Gauti Vilhelmsson, VOX Brasserí
- Hársnyrtiiðn, Irena Fönn Clemmensen, Verkmenntaskólinn á Akureyri