Glæsileg keppni í skrúðgarðyrkju

„Það sem er vandasamast í þessu eru hattarnir sem koma ofan á hleðsluna – Óðalshattarnir. Það þarf mikla nákvæmni til að þetta komi vel út,“ segir Ágústa Erlingsdóttir, umsjónarmaður keppni í skrúðgarðyrkju á Íslandsmóti iðn- og verkgreina, sem fram fór í Laugardalshöll í liðinni viku.

Þegar FIT bar að garði voru fjórir keppendur í óða önn við að helluleggja. Verkefnið fólst í að útbúa hellulögn, hleðslu og tvö beð á níu fermetra svæði með upphækkuðu beði úr Óðalshleðslustein. Í horninu á móti hleðslunni átti svo að vera lítið þríhyrningslaga beð en keppendur fengu úrval af plöntum sem þeir stilltu upp í beðin eins og þau kusu.

Sjá einnig: Sigurvegarar á Íslandsmóti iðn- og verkgreina 2023

Fram kemur í verklýsingu að verkefnið reyni á ýmsa þætti svo sem skipulagningu, lagningu hella og hleðslusteina, sögun á hellum, fúgun á hellulögn, vinnu með gróður, röðun í beð og snyrtilegan frágang á svæðinu. Helle Laks Ragnar og Steinn Guðmundsson dæmdu keppnina.

Skrúðgarðyrkja er kennd í Garðyrkjuskólanum á Reykjum, sem er hluti af Fjölbrautarskóla Suðurlands. Nemendur, sem núna eru 25 í skrúðgarðyrkju, eru tvo vetur í skóla auk 60 vikna í verknáms. Ágústa segir algengt að verknámið sé að hluta tekið á milli skólavetra enda sé skrúðgarðyrkja mjög árstíðabundin starfsgrein.

Ágústa, sem er brautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar, segir að meðalaldur nemenda í skrúðgarðyrkju sé hærri en í ýmsum öðrum iðngreinum. Hjá henni séu nemendur á aldursbilinu frá um tvítugt upp í sextugt. Það voru því yngri keppendur úr þeim hópi sem spreyttu sig á Íslandsmótinu.

Svo fór að Ólafur Sverrir Gunnarsson bar sigur úr bítum í keppninni og óskar FIT honum til hamingju með árangurinn.

Sjá einnig: Sigurvegarar í pípulögnum og málaraiðn

Ágústa segir að margir þeir sem ljúki námi stofni eigið fyrirtæki, ýmist strax eftir sveinspróf eða eftir framhaldsnám í meistaraskólanum eða utan Íslands. Hún bendir líka á að mörg sveitarfélög hafi skrúðgarðyrkjufólk í sínum röðum. Reykjavíkurborg sé til að mynda stór vinnustaður garðyrkjufólks.

Auk keppni í skrúðgarðyrkju voru blómskreytingar, garðyrkjuframleiðsla og skógrækt á meðal sýningargreina en óhætt er að segja að litríkar blómaskreytingar hafi sett mark sitt á keppnissalinn.

Styrktaraðilar keppni í skrúðgarðyrkju:

BM-Vallá – Þór hf – Björgun – Stjörnugarðar – Garðheimar – Gullregn – verktakar – Félag skrúðgarðyrkjumeistara – Múrbúðin – Félag iðn- og tæknigreina – Rekstrarvörur – NPK – Félag garðplöntuframleiðenda – Lóðalausnir

Fleiri myndir frá mótinu má sjá hér.