Málarabraut Tækniskólans verðlaunuð

Málarabraut Tækniskólans hefur hlotið Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Um þetta er tilkynnt á vef forseta Íslands.

Þar segir að brautin hljóti verðlaunin fyrir þróun einstaklingsmiðaðs náms í málaraiðn. „Brautinni hefur á undanförnum árum verið umbylt með þeim hætti að nemendur geta nú tekið námið á eigin hraða, með hliðsjón af hæfniviðmiðum. Kennarar brautarinnar hafa unnið þrekvirki við að semja ítarlegar verkefnalýsingar, kennslumyndbönd og annað efni til stuðnings. Fyrir vikið getur námið farið fram hvar sem er og nemendum á landsbyggðinni er þannig gert kleift að stunda málaranám úr heimabyggð.”

Markmið verðlaunanna, sem eru veitt í fimm flokkum, er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafa tekið höndum saman um að veita árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin heita Íslensku menntaverðlaunin.

Mynd: Embætti forseta Íslands / Mummi lú