Skógrækt í Fossvogi fyrir 70 árum
Gróðrarstöðin í Fossvogi var stofnuð árið 1932
„Ein helsta hindrunin á fyrstu áratugum skipulagðrar skógræktar á Íslandi var skortur á trjáplöntum. Til að rækta upp skóga að einhverju marki, að útvega fræ og þróa þekkingu á því hvaða trjátegundir þrifust best við íslenskar aðstæður.“ Þetta kemur fram á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Gróðrarstöðin í Fossvogi, sem sjá má á meðfylgjandi myndum, var stofnuð árið 1932, á landi sem bæjarstjórn Reykjavíkur afhenti Skógræktarfélaginu. Landið var frjósamt og hallaði mót suðri en skjóllaust. Byrjað var á því að ræsa það fram og rækta upp skjólbelti.
Fram kemur á vef félagsins að árið 1950 hafi 67 þúsund plöntur verið afhentar úr stöðinni og 157 þúsund árið 1952. Birki, sitkagreni, rauðgreni, stafafura, hlynur, reynir, víðir og rif voru á meðal tegunda en um 60 tegundir voru ræktaðar í Fossvogsstöðinni.
Meðfylgjandi myndir eru frá árinu 1955. Á þeim má sjá ungt fólk vinna við trjáplöntur. Í baksýn má sjá Kópavogshæðina en óhætt er að segja að allt umhverfi ræktunarinnar hafi tekið stakkaskiptum á þeim tæplega 70 árum sem liðin eru frá því þessar myndir voru teknar.
Um aldamótin var landið í Fossvogi selt Reykjavíkurborg. Þar sem Fossvogsstöðin var er nú Ræktunarstöðin í Fossvogi og útivistarskógurinn Svartiskógur.