ASÍ og SA berjast gegn vinnumansali

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins standa í dag fyrir ráðstefnu í Hörpu um vinnumansal. Dagskráin hófst klukkan tíu í morgun en ráðstefnunni lýkur klukkan fjögur. Fylgjast má með ráðstefnunni í beinni útsendingu á Vísi en dagskrá hennar má sjá hér neðst í fréttinni.

Jafnframt hafa samböndin sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um vinnumansal.

Sameiginleg yfirlýsing ASÍ og SA í baráttunni gegn vinnumansali

Undanfarin misseri hafa komið upp á yfirborðið nokkur mál á íslenskum vinnumarkaði sem sýna að vinnumansal þrífst í íslensku samfélagi. ASÍ og SA lýsa sameiginlega yfir áhyggjum sínum af því að slíkt geti þrifist hér á landi og finna til ábyrgðar sinnar um að gera allt sem er á þeirra valdi til að vinna gegn vinnumansali.

Íslenskur vinnumarkaður er að mestu leyti vel skipulagður enda hafa aðilar vinnumarkaðarins viðhaft mikið og virkt samtal um allt það sem lýtur að sameiginlegum hagsmunum. Stjórnvöld verða svo eðli málsins samkvæmt einnig að axla ábyrgð á samstarfinu sem þar með verður þríhliða sem er sérlega mikilvægt hvað varðar baráttuna gegn brotastarfsemi og markmiðið um að hér á landi þrífist ekki vinnumansal.

Vinnumansal er að mati ASÍ og SA ólíðandi og nauðsynlegt að allt sé skoðað með það að markmiði að uppræta slíka háttsemi.

Áhyggjur ASÍ og SA lúta ekki síst að stöðu erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði enda sýna dæmin bæði hérlendis og erlendis að einstaklingar í viðkvæmri stöðu sem hafa lagt mikið á sig og flutt um langan veg í leit að betra lífi eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir vinnumansali. Sameiginlegir hagsmunir allra eru að tryggja heilbrigðan vinnumarkað sem tekur vel á móti því fólki sem hingað kemur til að vinna.

Með vísan í allt framangreint skora ASÍ og SA á stjórnvöld að grípa svo fljótt sem verða megi til eftirfarandi almennra aðgerða:

  • Tryggð verði aðgerðaáætlun sem tekur sérstaklega til vinnumansals, þá sérstaklega viðbragðs- og eftirlitskerfis enda til lítils að sinna eftirliti ef niðurstaða fyrir þolendur er jafn slæm eða verri en var meðan á vinnumansalinu stóð.
  • Þolendum vinnumansals verði tryggð nauðsynleg félagsleg úrræði, eftir atvikum.
  • Koma þarf upp sérstöku ferli til að bera kennsl á þolendur vinnumansals.
  • Tryggja þarf fullnægjandi þekkingu á málaflokknum í réttarkerfinu og forgangsraða fræðslunni til að geta betur sinnt málaflokknum. Enda eru slík mál alla jafna flókin og viðkvæm bæði í rannsókn og saksókn.
  • Lög um atvinnuréttindi útlendinga verði endurskoðuð og eftir atvikum lögum um útlendinga í því augnamiði að takmarka líkur á vinnumansali.

ASÍ og SA lýsa því yfir að auk þess að vinna sameiginlega að framgangi framangreinds munu þau vinna að
markvissum aðgerðum á borð við;

  • Hvetja fyrirtæki til þess að taka ábyrgð á virðiskeðjunni í rekstri sínum. Aðilar munu m.a. útbúa fræðsluefni um hvernig best sé að gera það.
  • Búa til fræðsluefni um einkenni vinnumansals í samstarfi við önnur samtök fyrir almenning og atvinnurekendur.

26. september 2024

 

Dagskrá ráðstefnunnar

9.30-10.00 Skráning og kaffi bíður á borðum

10.00-10.30 Opnun og umræður

  • Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ
  • Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra

10.30-11.15 Addressing Labour Exploitation in the Nordic Countries: What Are the Differences and Why is Finland Ahead of the Rest?

  • Natalia Ollus, forstöðukona HEUNI, evrópskrar rannsóknarstofnunar sem starfar undir finnska dómsmálráðuneytinu

11.15-11.45 Hvernig komum við í veg fyrir vinnumansal? Pallborð

  • Natalia Ollus, forstöðukona HEUNI
  • Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA
  • Saga Kjartansdóttir, sérfræðingur á skrifstofu ASÍ
  • Heimir Guðmundsson, sviðsstjóri vinnuverndar, Vinnueftirliti ríkisins

11.45-12.15 Siðferðisleg ábyrgð samfélagsins í stóru samhengi

  • Henry Alexander Henrysson, heimspekingur

12.15-13.15 Hádegisverður

13.15-14.15 Málstofur I

Er vinnumansal fylgisfiskur fólksflutninga? Innflytjendur og inngilding

  • Málstofustjóri: Guðrún Margrét Guðmundsdóttir
  • Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og inngildingu, ASÍ
  • Hallfríður Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Mirru, fræðslu- og rannsóknarseturs
  • Sandra Björk Bjarkadóttir, mannauðs- og jafnréttissérfræðingur, Samkaup
  • Sabine Leskopf, borgarfulltrúi, Reykjavíkurborg

Ábyrgð fyrirtækja í virðiskeðjunni

  • Málstofustjóri: Heiðrún Björk Gísladóttir
  • Andri Reyr Haraldsson, formaður Félags íslenskra rafvirkja
  • Gunnar S. Magnússon, yfirmaður sjálfbærni og loftlagsmála hjá Deloitte á Íslandi
  • Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs, Samtökum iðnaðarins

Eftirlit á vinnumarkaði – framkvæmd og reynsla í nútíð og framtíð

  • Málstofustjóri: Benóný Harðarson
  • Adam Kári Helgason, eftirlitsfulltrúi hjá Húsi fagfélaganna
  • Axel Ólafur Pétursson, sérfræðingur á sviði vinnuverndar, Vinnueftirliti ríkisins
  • Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA
  • Tania D. Ellifson, verkefnisstjóri atvinnuréttinda hjá Vinnumálastofnun

14.15-14.30 Kaffihlé

14:30-15:30 Málstofur II

Vernd og þjónusta við þolendur vinnumansals

  • Málstofustjóri: Björg Bjarnadóttir
  • Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, verkefnastjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar
  • Gundega Jaunlinina, varaformaður Verkalýðsfélagsins Hlífar
  • Jenný Kristín Valberg, teymisstjóri Bjarkarhlíðar
  • Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar

Rannsókn og saksókn vinnumansalsmála

  • Málstofustjóri: Mirabela Blaga
  • Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum
  • Hildur Sunna Pálmadóttir, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
  • Natalia Ollus, forstöðukona HEUNI
  • Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdarstjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands
  • Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Hver má vinna á Íslandi? Kostir og gallar við núverandi löggjöf um atvinnuleyfi

  • Málstofustjóri: María Guðjónsdóttir
  • Bryndís Axelsdóttir, lögfræðingur og deildarstjóri atvinnuréttinda erlendra starfsmanna
  • Halldór Oddsson, sviðsstjóri lögfræði- og vinnumarkaðssviðs ASÍ
  • Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdarstjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
  • Lilja Björk Guðmunsdóttir, yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins

15.30 Ráðstefnulok