Ályktanir frá sambandsstjórn Samiðnar
Sambandsstjórn Samiðnar, sambands iðnfélaga, fundaði í dag, fimmtudaginn 10. október 2024.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktanir:
Ályktun um húsnæðismál
Samiðn fordæmir harðlega þá þróun sem orðið hefur á viðskiptum með íbúðarhúsnæði. Bent hefur verið á að nærri 9 af hverjum 10 nýjum íbúðum sem seldar voru á almennum markaði á fyrri helmingi þessa árs hafi verið keyptar af fjárfestum sem hafa ekki áform um að búa sjálfir í húsnæðinu.
Þetta sýnir að þrátt fyrir mikla húsnæðisþörf hefur almenningur í umhverfi hárra vaxta og verðbólgu orðið undir í baráttu sinni við fjársterka aðila um húsnæði. Hér hefur stjórnvöldum mistekist að grípa inn í.
Húsnæðisskorturinn hefur gert íbúðarhúsnæði að fjárfestingavöru með þeim afleiðingum að sífellt erfiðara er fyrir ungt fólk að komast inn á húsnæðismarkað. Leigufélög halda leiguverði uppi, til að hámarka arð sinna fjárfestinga.
Þegar unga fólkið okkar festist á leigumarkaði, vegna brasks með íbúðarhúsnæði, fer heil kynslóð á mis við eignamyndun sem eldri kynslóðir hafa notið. Það dregur úr lífsgæðum þeirra til bæði skemmri og lengri tíma og ýtir undir misskiptingu auðs í samfélaginu.
Undir þetta ófremdarástand ýtir hvoru tveggja skortur á nýjum byggingalóðum – þar sem sveitarfélögin hafa dregið lappirnar – en einnig skattalegur ávinningur þess að eiga húsnæðið í tvö ár eða lengur. Dæmi eru um að eignir standi tómar á meðan sá tímarammi er uppfylltur.
Samiðn skorar á ríki og sveitarfélög að bregðast tafarlaust við þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er á húsnæðismarkaði.
Ályktun um vexti og verðbólgu
Verðbólga hefur lækkað eftir því sem á árið hefur liðið og var 5,4% í september. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði nýverið vexti um 0,25 prósentustig. Um var að ræða fyrstu lækkun vaxta í tæp fjögur ár.
Í kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins, sem tók gildi 1. apríl 2024 er kveðið á um að samningurinn standi og falli með því að markmið um lækkun verðbólgu náist, sem aftur sé forsenda vaxtalækkunar.
Nú þegar jákvæð efnahagsleg teikn eru á lofti skorar Samiðn á fyrirtæki, sveitarfélög og ríki að halda aftur af verðhækkunum. Allir aðilar þurfa að standa í lappirnar nú þegar horfir til betri vegar í efnahagsmálum. Það er grunnforsenda þess að hægt sé að vinda ofan af því verðbólgu- og hávaxtaskeiði sem leikið hefur heimili landsins grátt undanfarin misseri.