Heldrimannaferðin 2024

Árleg skemmti- og skoðunarferð „Heldrimanna“ í Félagi iðn- og tæknigreina var farin föstudaginn 13. september. Að þessu sinni var byrjað á að sækja félagsmenn frá Reykjanesi, Árborg og Hveragerði og síðan var farið á tveimur rútum frá Árbæjarsafni klukkan 9.00. Ekið var í norðurátt með viðkomu á Akranesi.

Fyrsti áfangastaðurinn var Grábrók sem er um 170 metra hár gjallgígur norðaustan við Hreðavatn. Þar fengu menn úthlutað húfum að gjöf frá FIT. Haldið var áfram norður og leiðsögumennirnir Guðmundur Haukur Sigurðsson og Karl Sigurgeirsson voru teknir um borð í rúturnar á hæsta punkti Holtavörðuheiðarinnar. Þeir fræddu okkur síðan um staði í Húnaþingi vestra og sögðu okkur skemmtilegar sögur um menn og málefni svæðisins.

Þetta er í fyrsta sinn í þessum heldrimannaferðum sem farið er norður fyrir Holtavörðuheiði og vorum við einstaklega heppnir með veðrið. Hrútafjörðurinn skartaði sínu fegursta, spegilsléttur og bjartur. Sólin skein allan tímann og rætt var um besta dag „sumarsins“.

Hádegismatur var snæddur á Hótel Laugarbakka. Tekið var á móti okkur með fordrykk og samkvæmt venju var sunnudags-lambalæri með öllu og einnig kaffi og desert á eftir. Menn gerðu almennt góðan róm að salarkynnum, þjónustu og veitingum.

Eftir matinn var farið til Hvammstanga og Selasetrið heimsótt. Þar ræður ríkjum Örvar Birkir Eiríksson sem fræddi okkur um seli við Ísland. Selasetrið er fræðslu- og rannsóknarsetur og það var mjög skemmtilegt að fræðast um starfsemina og skoða sýninguna.

Að lokinni heimsókn til Hvammstanga var haldið suður aftur og ekki áð fyrr en á Hótel Bifröst þar sem kaffiveitingar biðu hópsins. Þar gafst mönnum einnig tími til að spjalla, segja sögur og syngja sem er auðvitað mikilvægur þáttur í svona ferðum.

Eins og venja er í þessum ferðum félagsins þá var reglulega „tekið til altaris“  sem og sungið með undirspili harmonikkuleiks Boga Sigurðssonar og Konráðs Óla Fjeldsted.

Þátttakendur í ferðinni voru rúmlega 80 manns auk formanns félagsins, Hilmars Harðarsonar, og Rúnars Hreinssonar ljósmyndara. Fararstjórar voru Gunnar Halldór Gunnarsson og Ólafur Sævar Magnússon.

Heimferðin gekk vel og það voru þreyttir iðnaðarmenn sem komu til síns heima og virtust allir glaðir og sáttir eftir góða ferð.

Myndir úr ferðinni má sjá hér – Velijð möppuna “Heldrimannaferð”