Félag bifvélavirkja 90 ára
Félagið var stofnað 17. janúar 1935

Félag bifvélavirkja var formlega stofnað þann 17. janúar 1935. Á nýju ári verða fyrir vikið 90 ár liðin frá stofnun þess. Í fyrstu var unnið að iðnréttindum sem aðalfélagsmáli en iðngreinin var viðurkennd í maí sama ár. Fyrstu sveinsbréfin voru gefin út 30. mars 1936.
Það voru ekki síður atvinnurekendur en launþegar sem komu að stofnun félagsins. Fljótlega varð hins vegar ljóst að illa gekk að ná samstöðu um kjaramál. Lögum félagsins var breytt 19. febrúar 1937 sem fólu í sér að verkstæðiseigendur gátu ekki verið meðlimir. Félag bifvélavirkja varð þá hreint sveinafélag. Árið 1937 gekk félagið í Alþýðusamband Íslands. Frá þessari sögu er greint í blaðinu Vinnan frá 1945.
Bifvélavirkjar voru lengi framan af öldinni í fararbroddi í kjarabaráttu iðnfélaga. Árið 1949 lögðu bifvélavirkjar t.a.m. niður störf í verkfalli sem stóð í 72 daga áður en sigur vannst.
Bifvélavirkjar og bílamálarar sameinuðust 1. júní 1991. Ári síðar slógust bifreiðasmiðir í hópinn og Bíliðnafélagið varð til. Árið 1998 sameinaðist Félag blikksmiða Bíliðnafélaginu en Bíliðnafélagið/Félag blikksmiða var eitt þeirra félaga sem tók þátt í stofnun FIT.
Upplýsingar um myndir
- Tryggvi Árnason að gera við Ford A vörubíl á verkstæði Páls Stefánssonar við Hverfisgötu um 1950.
- Verkstæði Egils Vilhjálmssonar, 1943.
- F.v. Kornelíus Hannesson, Ingólfur Sigurjónsson og Nikulás Steingrímsson.
- Bifreiðaverkstæði Nikulásar Steingrímssonar í kjallaranum á Vatnsstíg 3 vorið 1927. F.v. Ingólfur Sigurjónsson, Nikulás Steingrímsson, Kornelíus Hannesson og Steingrímur S. Welding.