„Vélarnar hafa alltaf átt vel við mig “
„Ég hef starfað nær sleitulaust í bíliðnum í tæp 40 ár, þrátt fyrir að hugurinn hafi leitað í aðrar áttir,“ segir Sigurpáll Björnsson, starfsmaður í þjónustuveri Öskju. Sigurpáll er einn þeirra sem komst upp á lag með að vinna að heiman í COVID og hefur gert það allar götur síðan, eða í um fjögur ár. Hann hefur starfað hjá Öskju frá 2006.
Sigurpáll býr í Þorlákshöfn og segist vera feginn að vera laus við aksturinn. Næðið heima fyrir henti honum vel. „Þjónustuverin er flest þannig að störfin þurfa ekki að vera staðbundin. Þetta er fyrst og fremst tölvuvinna og símtöl – það hentar mér prýðilega. Ég get betur einbeitt mér að verkefnunum þegar ekki er utanaðkomandi áreiti. Ég er þessi skrýtni þegar að þessu kemur,“ segir hann í gamansömum tón. Hann kveðst þó heimsækja vinnustaðinn í mánuði hverjum.
Sigurpáll hóf að læra bifvélavirkjun og vélvirkjun veturinn 1980 til 1981. Af persónulegum ástæðum tók hann sér hins vegar hlé frá náminu en hefur þrátt fyrir það unnið við bíla nær allar götur síðar. Hann hefur prófað ýmsar starfsgreinar og hafði til dæmis viðkomu í Foldu á Akureyri, sem var í prjónaskap og vefnaði, og starfaði þar í tækjasal um hríð. En hann sneri alltaf aftur í bílana. „Ég hef hlotið sérstaka þjálfun sem tæknimaður KIA og starfaði sem slíkur um árabil, eða til ársins 2014 þegar skrokkurinn gaf sig. Ég brotnaði illa. Þá færði ég mig inn í þjónustuverið. Ég segi stundum að þegar bílabransinn var búinn að klára á mér skrokkinn hafi verið ákveðið að klára á mér hausinn líka,“ segir hann og hlær.
Sigurpáll, sem er fæddur og uppalinn Húnvetningur, verður 61 árs í febrúar. Hann segist snemma hafa byrjað að fikta í vélum í sveitinni. „Ég var ekki kominn á fermingaraldurinn þegar ég tók upp mína fyrstu bílvél. Þetta hefur alltaf legið vel fyrir mér.“
Hann hafði hins vegar aðra drauma. Hugur hans stóð lengi vel til þess að starfa við ljósmyndun. „Ég hef alltaf haft gaman að ljósmyndun. Ég lærði inn á það sem unglingur en gaf mér aldrei færi á að stíga það skref – þrátt fyrir að mig hafi alltaf langað til þess. Tíðarandinn á þeim árum var ekki þannig að vélaþenkjandi strákur úr sveit færi að mála myndir og taka ljósmyndir. Ég endaði þess vegna alltaf í vélunum.“
Aðspurður segist Sigurpáll ekki glíma við eftirsjá að hafa ekki elt þá drauma – nema sem áhugaljósmyndari „Nei, ekki lengur. Það er engin eftirsjá. Bílvélarnar hafa alltaf átt vel við mig.“