Nýtur þess að gera við bilaða hluti
Viðtal við Gylfa Ísarr Sigurðsson bifvélavirkja

Bifvélavirkinn Gylfi Ísarr Freyr Sigurðsson sleit barnsskónum að hluta á gólfinu hjá SS á Skúlagötunni. Þar unnu móðir hans og amma. Leið hans lá, sem von er, í kjötiðn en hann vann sjálfur um árabil hjá Ferskum kjötvörum ásamt stuttri viðkomu á námsamningi hjá SS.
Þegar illa gekk að komast á samning hjá kjötiðnaðarmanni, ákvað Gylfi að venda kvæði sínu í kross og fara í bifvélavirkjun. „Ég hef alltaf haft gaman af því að laga hluti; að finna vandamálið og leysa það. Ég hef líka miklu ánægju af því að vinna með rafmagn. Þess vegna á bifvélavirkjunin vel mig,“ segir hann.
Ekki gekk það heldur þrautalaust að ljúka sveinsprófi í þeirri iðngrein. Gylfi hóf nám í iðnskólanum í grunndeild málmiðnar 1993, svo í bifvélavirkjun í Borgarholtskóli árið 1996. Námið hafði þá verið fært í nýja Borgarholtsskóla. Þar urðu breytingar á námskrá ekki einu sinni heldur tvisvar. Það var á þessum tíma heldur ekki hlaupið að því að komast á samning hjá verkstæði. Það hófst þó að lokum hjá vörubílaverkstæði Brimborgar.
Gylfi fékk skilaboð, þegar styttist í útskrift, að hann ætti eftir að ljúka mörgum grunnáföngum. Heiti áfanganna höfðu breyst en hann var þá búinn með framhaldsáfanganna. Úr varð að hann útskrifaðist árið 2006. „Ég útskrifaðist þess vegna með aðeins of margar einingar,“ segir hann. Sveinsprófi í bifvélavirkjun lauk hann árið 2007.
Pantar og tekur saman varahluti
Í dag vinnur Gylfi við að taka saman varahluti fyrir bifvélavirkja sem eru að gera við vörubíla hjá Velti. Hann ráðfærir sig við bifvélavirkjana á gólfinu og pantar og sækir varahluti.
„Ég byrjaði hjá vörubílaverkstæði Brimborgar 2003 og var til 2016. Ég fór svo aftur til Veltis 2018 og hef verið þar síðan. Hann segir aðspurður að menntun hans og reynsla geti þar skipt sköpum. Það geti verið dýrt að skipta ekki um alla hluti sem þarf að skipta um, þegar þessi verðmætu atvinnutæki eru annars vegar. Mikilvægt sé að standa rétt að viðgerðunum.
Samvinnan mikilvæg
Gylfi, sem er fæddur 1977, er bæði öryggistrúnaðarmaður hjá Velti en er líka nýtekinn við sem trúnaðarmaður starfsmanna. Í hlutverki öryggistrúnaðarmanns gengur hann úr skugga um að vinnuumhverfið sé öruggt og heilsusamlegt en tekur fram að í því hlutverki felist samvinna við alla aðra á vinnustaðnum. Oft þurfi að finna leiðir til að bæta úr hlutum á þess að það bitni um of á afkastagetu vinnustaðarins. Það takist ekki nema með samvinnu allra á vinnustaðnum.
„Ég þarf stundum að sannfæra fólk um hvað þarf að gera og fylgja því eftir að það sé gert.“ Hann segist stundum þurfa að leggja til úrbætur á vinnustaðnum – til dæmis í tengslum við útblástur vörubifreiða. „Þetta snýst um samvinnu allra á vinnustaðnum og finna rétta farveginn fyrir þær breytingar sem þarf að gera.“
Eins og fyrr segir er Gylfi nýtekinn við sem trúnaðarmaður. Hann varð fyrir óhappi í vatnsrennibraut með ungri dóttur sinni á dögunum og hefur, þegar þetta viðtal er tekið í nóvemberlok, verið frá vinnu af þeim sökum. Sjúkraþjálfun vegna meiðsla á hné gengur vel og vonast hann til að snúa aftur til vinnu fljótlega. „Mér líst bara vel á þetta hlutverk. Ég tók við þessu í lok október, svo það hefur ekki reynt á þetta enn,“ segir hann að lokum.