Rankaði við sér og skellti sér í nám
Viðtal við húsasmiðinn Alex Maron Einarsson

„Ég er Vestfirðingur, ég er frá Bíldudal. Það eru um tvö ár síðan ég flutti suður,“ segir húsasmiðurinn Alex Maron Einarsson, trúnaðarmaður FIT og starfsmaður Vörðufells ehf. Hann býr í Hveragerði ásamt konu og þremur börnum þeirra. Spurður hvað hafi ýtt honum suður á bóginn svarar Alex: „Það er svo sem allt á uppleið fyrir vestan. En ég á bara eitt líf og ég nenni ekki að bíða eftir að hlutirnir fari að gerast.“
Alex lauk sveinsprófi í húsasmíði fyrir tveimur til þremur árum og kemst skemmtilega að orði þegar hann er spurður hvað hafi orðið til þess að hann valdi húsasmíðina. „Ég segi stundum við félaga mína: Það besta sem komið hefur fyrir mig var þegar ég áttaði mig á því að ég væri aumingi því þá gat ég loksins gert eitthvað í því – svo ég drullaði mér bara í nám,“ segir hann og dregur ekkert undan.
Hann viðurkennir raunar að hann hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á húsasmíði þegar hann skráði sig til leiks en segir að námið hafi kveikt hjá sér áhugann. „Ég hafði ekkert brennandi áhuga en ég fékk hann þegar ég byrjaði að læra þetta.“
Hann er nokkuð ánægður með húsasmíðanámið en segir að margt af því gangi út á heilbrigða skynsemi. „En ég er svo sem kominn af langri kynslóð af barbapöbbum, sem hafa gert allt sjálfir í höndunum,“ segir Alex. Þetta hafi því átt vel við hann.
Vörðufell sinnir aðallega verkefnum á Selfossi og þar í kring. „Við erum allt í öllu bara. Við vinnum svolítið fyrir tryggingafélögin en erum líka að byggja íbúðarhúsnæði. Við höfum stöku sinnum tekið að okkur verkefni í bænum en erum mest að starfa hér á þessu svæði. Hjá fyrirtækinu starfa hátt í 30 manns, með þeim sem eru á skrifstofunni,“ segir Alex, sem er 31 árs.
Hann segist ánægður í Hveragerði. „Þetta er mjög góð stærð af bæjarfélagi. Hér er ekki sama vitleysan og í bænum. Hveragerði hefur mikið meira upp á að bjóða finnst mér.“