Hlýt að fá stjórnlausa kauphækkun

Fréttabréf FIT: Rætt við múrarann Gylfa Jón Gylfason

„Það er alveg ástæða fyrir því að þú þarft að vinna í ákveðinn tíma áður en þú færð að fara í þetta próf. Námið kennir þér ákveðinn grunn en þú lærir handbragðið úti á markaðnum í vinnu undir leiðsögn manna sem kunna þetta.“ Þetta segir Gylfi Jón Gylfason, sálfræðingur og nýsveinn í múrverki.

Gylfi vatt kvæði sínu í kross fyrir nokkrum árum og ákvað að skella sér í iðnnám. Hann var aldursforsetinn í hópnum, fæddur árið 1961, og útskrifaðist í sumar [2024]. Gylfi varð svo 63 ára fyrr í haust. Hann segir aðspurður að of mikið sé gert úr því hvað iðngreinarnar séu erfiðar líkamlega. „Auðvitað þarf maður að vera sæmilega á sig kominn en ég held að of mikið sé gert úr því hvað þetta sé erfitt. Það hafa orðið svo miklar framfarir þegar kemur að efni og búnaði að þetta er ekki þessi þrældómur sem þetta var kannski áður.“

Gylfi Jón leggur lokahönd á sveinsstykkið (vorið 2024).

Gylfi hefur unnið við múrverk undir handleiðslu múrarameistara síðastliðið ár. Spurður hvað sveinsprófið gefi honum svarar Gylfi Jón því til að réttindin séu auðvitað fyrst og síðast staðfesting á því að hann kunni til verka. „Ég held að þetta gefi mér aðallega ánægjuna af því að hafa lokið þessu námi. Ég þarf annars að ræða við Högna eftir útskriftina. Ég hlýt að fá alveg stjórnlausa kauphækkun þegar ég er kominn með skírteinið. Það blasir við,“ segir hann og hlær.

Aðspurður segir Gylfi það heillandi tilhugsun að eftir hann muni liggja verk um borg og bæ, þegar hann er fallinn frá. „Það er sú vitneskja sem gerir múrverkið ólíkt öllu öðru sem ég hef fengist við um ævina. Það er mjög aðlaðandi tilhugsun að skilja eitthvað áþreifanlegt eftir sig.“

Gylfi segir að sveinsstykkið, tröppurnar sem nemendur smíðuðu í sveinsprófinu, reyni á ansi margt af því sem þau lærðu í skólanum. Hann nefnir að hver hlið eigi að hafa sína áferð og að allar málsetningar séu nákvæmar. Þá sé vandasamt að hlaða tröppur sem séu snúnar en nemendur höfðu 50 klukkustundir til að ljúka verkefninu. „Þetta er lítið stykki en reynir á margt af því sem maður lendir í úti á akrinum,“ segir hann við FIT á meðan hann mundar kassaglattarann.

Þegar Gylfi stendur upp og horfir yfir salinn hefur hann orð á því hvað útskriftarhópurinn sé samheldinn. Þannig hafi þeir sem næst stóðu einu konunni í hópnum (Sóley, sem rætt er við hér) iðulega gætt þess að hún þyrfti ekki að lyfta þungum hlutum – enda var hún kasólétt. „Trausti kennari hefur stundum sagt að maður þurfi að vera svolítill nagli þegar maður er í múrverki – en hér eru naglarnir mjúkir inn við beinið,“ segir hann að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í Fréttabréfi FIT. Það var tekið vorið 2024.