Múrverkið er í góðum höndum
Viðtal við Hans Óskar Isebarn, fulltrúa FIT í sveinsprófsnefnd í múrarariðn

„Þessir nemendur eiga það sameiginlegt að hafa fengið góða kennslu. Þeir kunna vel til verka,“ segir Hans Óskar Isebarn, fulltrúi FIT í sveinsprófsnefnd í múraraiðn. Síðastliðið sumar þreyttu 26 nemendur sveinspróf í iðngreininni. Þeir sýndu sveinsstykkin sín þann 7. júní 2024.
Sveinsprófsnefndin hefur það hlutverk að leggja skriflegt og verklegt próf fyrir nemendur sem eru að útskrifast úr iðnnámi. Nefndina skipa, auk Hans Óskars, þeir Ásmundur Kristinsson og Auðunn Kjartansson. Skriflega prófið tekur að sögn Hans um klukkustund en verklega prófið er öllu umfangsmeira eins og gefur að skilja. „Verklega prófið tekur fjóra og hálfan dag – og það eru fullir vinnudagar.“
Sveinspróf í múraraiðn eru haldin einu sinni á ári en þau eru auk þess lögð fyrir á Akureyri, eftir þörfum. Hans segir að þannig hafi níu nemendur þreytt sveinspróf í múraraiðn í Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrr á árinu.
Hans segir að nemendur í múraraiðn séu í afar góðum höndum. Björn Eyberg Ásbjörnsson múrarameistari kennir nemendum í Vestmannaeyjum, Bjarni Bjarnason múrarameistari kennir nemendum í Verkmenntaskólanum á Akureyri og Þráinn Óskarsson í Tækniskólanum. Auk þess sjá múrarameistarar um verklega þjálfun lærlinga. Saman skili þetta fyrirkomulag nemendum sem kunni vel til verka. „Þetta próf reynir mikið á nemendur. Þeir þurfa að hlaða veggi, steina veggi, flísaleggja, búa til tröppur og ýmislegt fleira. Málin þurfa að vera hárrétt,“ útskýrir Hans og bætir við að sveinsprófsnefndin hafi ekki þurft að fella neinn að þessu sinni.
Iðnnám meira metið en áður
Hans segir að honum finnist iðnnám vera jafnvel meira metið í samfélaginu en áður. Fyrir ekki svo löngu hafi foreldrar lagt áherslu á að börnin þeirra færu í háskóla en nú sé viðhorfið þannig að iðnnám sé alveg jafn mikils metið. Það sé afar ánægjulegt.
Honum þykir sérstaklega ánægjulegt þegar nemendur með lesblindu eða aðrar greiningar sem hamlað geta bóknámi, fá ættingja og vini á sveinsprófssýningar. Þar fái útskriftarnemendur að njóta þess, jafnvel í fyrsta sinn á lífsleiðinni, að dáðst sé að námsárangri þeirra og færni. „Það er reyndar þannig að þeir sem eru með lesblindu eða annað slíkt eru oft sérstaklega færir í höndunum,“ segir Hans.
Fjölbreyttur útskriftarhópur
Þrátt fyrir að ungt fólk sé í meirihluta útskriftarnema er hópurinn nokkuð fjölbreyttur. „Við erum líka að fá inn í þessar greinar útlendinga sem hafa jafnvel unnið við fagið árum saman án þess að hafa haft réttindi. Við fáum líka Íslendinga með mikla reynslu, sem eru að klára iðnnámið seinna á lífsleiðinni. Einn útskriftarneminn okkar að þessu sinni er fæddur 1962.“ Hans segir afar ánægjulegt að fá þessa einstaklinga inn. Hann bætir við að eldri nemendur séu ekki endilega með meiri reynslu úr múrverki en þeir yngri en þeir hafi hins vegar reynslu af ýmsu öðru sem þeir yngri búi síður yfir.
Karlmenn eru í miklu meirihluta í múrverki. Í þessum útskriftarhópi var ein kona – sem var raunar kasólétt þegar hún þreytti sveinsprófið – en í fyrra voru konurnar tvær. „Ég sagði strákunum í sveinsprófinu að þeir yrðu að hjálpa henni að lyfta upp steinunum – og þeir gerðu það með bros á vör,“ segir Hans glaður í bragði.
Múrverkið stenst tímans tönn
Sjálfur lauk Hans sveinsprófi árið 1987, eftir að hafa tekið stúdentspróf og klárað fyrri hluta náms í lögfræði. Hann segir að mikið hafi breyst í áranna rás þrátt fyrir að múrverkið hafi kannski minnst breyst af öllum greinum í byggingariðnaði. Ýmis tæki hafa auðveldað vinnuna auk þess sem múrarar séu sjaldnar að leggja í gólf – í dag sé notast við flotun. „Múrverki tilheyrir til dæmis sandspörslun og járnalögn í húsum. Við múrarar berum ábyrgð á járnalögninni. Margt í múrverkinu er svipað og var hérna áður fyrr en tækniframfarirnar hafa þrátt fyrir það verið miklar,“ útskýrir Hans.
Hans er kominn vel yfir sjötugt og leggur mikla rækt við golfkylfurnar. Hann segir hins vegar að þessi vika sem hann verji á hverju ári með ungum múrurum sé honum afar dýrmæt. „Það er ákaflega gaman að hitta og umgangast allt þetta unga fólk. Það er mjög gefandi að sjá hvað þau eru ánægð með að ljúka náminu sínu og vera metin til sveinsprófs. Mér finnst líka sérstaklega ánægjulegt hversu vel er staðið að náminu og hvað þetta er í góðum höndum,“ segir hann að lokum.
Viðtalið birtist fyrst í Fréttabréfi FIT, desember 2024