Stál í stál, gott mál

 

Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarið vegna erlendra starfsmanna fyrirtækisins Stál í stál í Hafnarfirði.  Þar eru m.a. 12 Pólverjar að störfum við ýmis verkefni. Um er að ræða 6 trésmiði 2 múrara og 4 suðumenn.  Allir voru þeir með ráðningasamninga sem tilgreindu þá sem aðstoðarmenn í iðnaðarstörfum en laun sem fullgildir iðnaðarmenn eftir eins árs starf.  Um það var einnig rætt við fyrirtækið að ef þeir yrðu áfram að störfum eftir eins mánaðar reynslutíma,  yrðu þeir færðir á fimm ára  taxta iðnaðarmanna og þeir sem lagt gætu fram réttindapappíra fengju leiðréttann fyrsta mánuðinn upp í fimm ára taxta.  Allt hefur þetta staðist eins og stafur á bók , allir starfsmenn nú á fimm ára taxta og Stál í Stál verið til fyrirmyndar í jákvæðni og viðmóti við stéttarfélagið.  Að sögn forstjórans  var það fyrst og fremst með hag starfsmannanna í huga sem reynt var að hafa afskipti af því að starfsmennirnir voru boðaðir til fundar í öðru stéttarfélagi undir því yfirskini að það væri þeirra stéttarfélag.  Það skal að lokum áréttað að allir starfsmenn Stál í stál hafa skilað inn inntökubeiðnum í FIT og fundað hefur verið með starfsmönnum sem kváðust mjög ánægðir með viðmót og kjör í fyrirtækinu.