Aðalfundi FIT lokið

 

Aðalfundur FIT var haldinn laugardaginn 31. mars s.l. Á fundinum voru afgreidd ýmis mál auk venjulegra aðalfundastarfa. Þetta er fyrsti aðalfundur eftir sameiningu FIT og Iðnsveinafélags Suðurnesja og voru nýjir félagsmenn boðnir sérstaklega velkomnir. Fram kom að með sameiningu FIT og ISFS varð til gríðarlega öflugt og fjölmennt stéttarfélag en félagsmenn eru yfir 3.200 talsins.

Stjórn FIT hefur lækkað þak á félagsgjöldum úr kr. 45. 000 í kr. 33.000 fyrir árið í ár, en það svarar til 0,7% félagsgjalds hjá iðnaðarmanni með tæpar 4,8 milljónir í árstekjur. Félagsgjald FIT er í dag 1% af launum og það sem greitt er umfram þak á félagsgjaldinu er endurgreitt í júnímánuði ár hvert. Við þetta bætist að menntasjóður er alfarið fjármagnaður af félagssjóði og því má segja að þeir sem nýti hann séu að fá ennþá meira til baka. Ekkert framboð kom fram gegn þeim stjórnarmönnum sem uppstillinganefnd hafði gert tillögu um, en helmingur stjórnar er árlega kosinn til tveggja ára. Hilmar Harðarson var endurkjörinn formaður. Margt fleira kom fram á fundinum og voru fundarmenn ánægðir með rekstur félagsins á liðnu ári.