Íslandsmót iðngreina

Íslandsmót iðngreina
- Keppt í 11 greinum á Íslandsmóti iðngreina 18.-19. apríl

Keppt verður í 11 greinum á Íslandsmóti iðngreina sem fram fer föstudaginn 18. og laugardaginn 19. apríl nk. í anddyri gömlu Laugardalshallarinnar. Alls eru 77 keppendur skráðir til leiks. Markmið Íslandsmóts iðngreina, sem Iðnmennt stendur fyrir, er að vekja athygli á iðn- og starfsmenntun, kynna almenningi iðngreinar - ekki síst ungu fólki - og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í iðngreinum.

Fyrirkomulag mótsins í ár er breytt frá því sem verið hefur að því leyti að nú ber það yfirskriftina Íslandsmót iðngreina í stað Íslandsmóts iðnnema. Íslandsmót iðngreina verður undanfari og forkeppni einstakra keppnisgreina fyrir þátttöku í Euro Skills og World Skills sem er alþjóðleg keppni iðngreina. Meira er lagt í keppnisgreinarnar nú en áður og viðfangsefnin í flestum tilvikum veigameiri og meira krefjandi. Íslandsmótið er ætlað iðnnemum og nýútskrifuðum iðnaðarmönnum, 22 ára og yngri. Keppt verður í eftirtöldum greinum: Málmsuðu, trésmíði, pípulögn, bílaiðngreinum, múrverki, málaraiðn, dúklagningum, hársnyrtingu, snyrtifræði, upplýsinga- og fjölmiðlagreinum og rafvirkjun. Auk þess verða kynntar nokkrar greinar á mótinu sem ekki er keppt í.

Líkt og undanfarin ár sér Iðnmennt um almennan undirbúning og skipulagningu mótsins en hefur nú gert samstarfssamning við AP almannatengsl sem sjá um kynningarmál og framkvæmd viðburðarins. Að skipulagningu keppnisgreina koma Félag hársnyrtisveina, Félag íslenskra snyrtifræðinga, Félag pípulagningameistara, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsamband Íslands og IÐAN - fræðslusetur. Aðalbakhjarlar mótsins eru Samtök iðnaðarins og menntamálaráðuneytið.

Mótið í ár er haldið í tengslum við sýninguna Verk og vit 2008 sem fram fer dagana 17.-20. apríl næstkomandi. Sýningin er haldin annað hvert ár en héðan í frá verða þessir tveir viðburðir haldnir samhliða.

Nánari upplýsingar veitir:

Tryggvi Thayer, verkefnisstjóri hjá Iðnmennt, sími: 562 3370 eða tölvupóstur:
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

 

 

Frá Íslandsmótinu í fyrra.
Ljósmynd/Jón Svavarsson