Samkomulag Sameinaða lífeyrirssjóðsins og sjúkrasjóða

Samkomulag Sameinaða lífeyrirssjóðsins og sjúkrasjóða um þjónustu vegna starfsendurhæfingarmála


Undirritað hefur verið samkomulag milli Sameinaða lífeyrissjóðsins (SL) og sjúkrasjóða stéttarfélaga sem aðild eiga að sjóðnum um samstarf við þjónustu fyrir þá sjóðfélaga sem falla út af vinnumarkaði í kjölfar slysa eða af völdum sjúkdóma.
Flestir sjúkrasjóðir aðildarfélaga sjóðsins standa að samkomulaginu frá byrjun *) og viðbrögð hinna hafa verið jákvæð þótt ekki hafi öllum tekist að ljúka því að taka endanlega afstöðu til samkomulagsins ennþá.

Hjá öllum aðilum samkomulagsins hefur það verið hluti af starfseminni að aðstoða bótaþega við að komast aftur út á vinnumarkaðinn, með ýmiss konar stuðningi og endurhæfingar-úrræðum. En betur má ef duga skal og er það markmið þeirra sem að samkomulaginu standa að bæta árangurinn, þ.e. að fleiri komist og það fyrr aftur út á vinnumarkaðinn eftir tímabundna fjarveru vegna heilsubrests.

Samkomulagið er m.a. yfirlýsing aðila um að vinna saman að:

1) Auknu faglegu samráði, sem felur m.a. í sér að samræma þjónustu gagnvart þeim sem falla út af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þar er um að ræða frumgreiningu til þess að meta hvers konar stuðningur eða endurhæfing kæmi að bestu gagni. Með samstarfinu gefst bæði tækifæri til að miðla reynslu milli aðila en einnig mynda vettvang til þess að sækja nýja þekkingu og samræma vinnubrögð í úrvinnslu.

2) Réttri tímasetning aðstoðar. Að mati fagfólks skiptir það sköpum um árangur aðstoðar og endurhæfingar að slík vinna sé hafin sem allra fyrst eftir að sjúkdómur eða slys skerðir starfsorku fólks. Með samstarfi SL og sjúkrasjóða er opnuð leið til þess að treysta þessa vinnu. Fyrir SL er mjög brýnt að koma að málum fyrr en nú er því eftir að fólk hefur fengið dagpeningagreiðslur hjá sjúkrasjóði í 6 mánuði og jafnvel lengur þá sækir það fyrst um örorkulífeyri hjá lífeyrissjóðnum. Aðkoma sjóðsins er því oftar en ekki það seint í ferlinu að úrræði sem þá er gripið til eru ekki líkleg til að skila miklum árangri.

3) Samfelldri þjónustu fyrir bótaþegann. Með samstarfi kemst bótaþeginn inn í þjónustu sem hefst hjá sjúkrasjóði og þarf ekki að hefja allan ferilinn upp á nýtt hjá lífeyrissjóðnum.

Það eru þessi 3 grunnmarkmið sem samkomulagið fjallar um. Nú fer í hönd vinna við að setja upp vinnuferla og eftir atvikum gera samninga við fagfólk sem að málum þarf að koma. Það er rétt að fram komi að persónubundin mál verða eftir sem áður eingöngu á borði hvers bótagreiðanda á hverjum tíma og sú nýja þjónusta sem boðin verður í samræmi við samkomulag þetta verður boðin einstaklingum en ekki skilyrt.

Kostnaður sem hlýst af samkomulaginu er gert ráð fyrir að falli að mestu leyti á SL en til lengri tíma litið er horft til fjármagns úr nýjum endurhæfingarsjóði aðila vinnu-markaðarins.

Rétt er að geta þess að þetta samkomulag á að vinna með en ekki á nokkurn hátt gegn nýjum endurhæfingarsjóði. Það er fullvissa samkomulagsaðila að samvinnan styrkir þá vinnu sem þar er framundan og því er auðvitað ekkert að leyna að ný tækifæri myndast í starfsendurhæfingarmálum með þeim fjármunum sem vænta má að endurhæfingar-sjóður hafi til þessa málaflokks í framtíðinni. Við útfærslu á hinum nýja endurhæfingarsjóði er brýnt að nýta sem best þá styrkleika sem felast í núverandi starfi sjúkrasjóða og lífeyrissjóða og þá aðra reynslu sem þar hefur byggst upp í þessum málaflokki.

Það er hagur allra hagsmunaaðila að ná árangri í starfsendurhæfingu. Ávinningur þeirra einstaklinga sem ná aftur út á vinnumarkað í kjölfar alvarlegra veikinda eða slysa er þó sýnu mestur. Fyrir þá erum við sterkari saman.


*) Samkomulagsaðilar 14. maí 2008:
Sameinaði lífeyrissjóðurinn
Sjúkrasjóður Félags bókagerðarmanna
Sjúkrasjóður Félags iðn- og tæknigreina
Sjúkrasjóður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri
Sjúkrasjóður Félags vélstjóra og málmtæknimanna
Sjúkrasjóður Múrarafélags Reykjavíkur
Sjúkrasjóður Trésmiðafélags Reykjavíkur