Virkjun, afl í atvinnuleysi

Virkjun, afl í atvinnuleysi

 

Hvað er Virkjun á Vallarheiði:

Virkjun mannauðs á Reykjanesi hóf starfsemi sína sl. mánudag. Virkjun er til húsa í byggingu 740 á Vallarheiði en þar er verið að byggja upp starfsemi fyrir íbúa á Reykjanesi sem leita nýrra tækifæra í atvinnu eða námi.  Þá verður Virkjun ekki síður samkomustaður fólks sem vill breyta því áfalli sem atvinnuleysi er í ný tækifæri á atvinnumarkaði með námi, námskeiðum eða mannbætandi tómstundum og menningarstarfsemi sem einnig verður í boði í Virkjun.  Virka daga er Virkjun opin frá kl. 9:00-16:00.

Sveitarfélögin á Reykjanesi, Vinnumálastofnun, verkalýðsfélög og fyrirtæki, menntastofnanir eins og Keilir, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hafa tekið höndum saman og bjóða upp á fjölbreytt nám fyrir þá sem leita nýrra tækifæra.  Miðstöð verkefnisins verður í VIRKJUN, rúmlega 1.500 fermetra húsnæði sem KADECO hefur lagt til fyrir starfsemina.  Áhersla er lögð á hlýjar móttökur og skipulagða starfssemi, þar sem litið verði á erfiða stöðu sem tækifæri .  Leitað verður eftir vinnuframlagi frá þeim stofnunum sem að verkefninu standa en ekki síður sjálboðaliðastarfi.  Almenningi er boðið að heimsækja Virkjun á daginn og fá þar fjölbreytilega þjónustu; sálfræðiaðstoð, fjármálaráðgjöf, náms og starfsráðgjöf o.s.frv.  Vinnuaðstaða fyrir ýmiskonar frumkvöðlastarfsemi og aðstoð við stofnun sprotafyrirtækja, aðstaða fyrir námstengd verkefni, fyrirlestrar, kynningar, persónuleg ráðgjöf og tómstundaverkefni, þátttakendum að kostnaðarlausu.

Í boði verður léttur hádegisverður og dagskrá alla daga þannig að hver og einn á að geta fundið verkefni við hæfi.  Samhliða persónulegri ráðgjöf eiga „viðskiptavinir" Virkjunar að geta sótt fyrirlestra, íþróttaæfingar, sótt um vinnu, stofnað fyrirtæki o.s.frv.  Kappkostað verður að hafa ekki einungis starfssemi fyrir atvinnulausa á svæðinu heldur mun þar einnig fara fram önnur starfssemi, s.s. kennsla á vegum Keilis, Fjölbrautaskólans og Miðstöðvar símenntunar, nýsprotastarfssemi, lærdómsaðstaða fyrir nemendur o.s.frv. þannig að „stimpillinn" atvinnuleysi verði ekki um of tengdur Virkjun.
 Verkefnið er nýmæli til að takast á við atvinnuleysi og má líta á það sem tækifæri til sjálfseflingar, menntunar og að gera einstaklinginn hæfari til frekari þátttöku í atvinnulífinu þegar ný tækifæri skapast á vinnumarkaði.

Verkefnastjórar Virkjunar eru Ásmundur Friðriksson og Ása Eyjólfsdóttir ásamt Páli Rúnari Pálssyni sem er atvinnulaus en leggur Virkjun til starfskrafta sína.