Ályktun um efnahagsmál

 

Ályktun um efnahagsmál.  
Félagsfundur í Félagi iðn- og tæknigreina haldinn 5. maí 2009 lýsir yfir miklum vonbrigðum með seinagang íslenskra stjórnvalda við að mæta erfiðleikum fjölskyldna og fyrirtækja í landinu. Íslenskum fjölskyldum sem eiga í erfiðleikum með að standa undir daglegum útgjöldum fjölgar ört og farið er að bera á vaxandi upplausn meðal þeirra. Samfara mikilli fjölgun gjaldþrota fyrirtækja hefur atvinnuleysi farið hratt vaxandi og nálgast 18.000 manns. Án róttækra aðgerða ríkisvaldsins, mun atvinnuleysi fara vaxandi og festast í sessi til lengri tíma.

Gripið hefur verið til margþættra aðgerða sem hafa það að markmiði að auðvelda fjölskyldum að mæta vaxandi erfiðleikum þ.á.m. aðgerðum til að létta undir þungri skuldabyrði. Mikil vantrú ríkir þó ennþá í þjóðfélaginu, háir vextir eru að sliga fjölmörg heimili og fyrirtæki og almenn skoðun að vandi fjöldans sé enn óleystur. Þetta stafar m.a af miklum seinagangi í stjórnkerfinu við að ganga frá reglugerðarsetningum en einnig skortir á almenna kynningu. Sama má segja um aðgerðir sem snúa að atvinnulífinu, lánafyrirgreiðsla er lítil, vextir að sliga reksturinn og stjórnkerfið svifaseint. Sem dæmi má nefna að reglugerðarsetning til hækkunar á endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðahalds húsnæðis hefur enn ekki litið dagsins ljós, þrátt fyrir ítrekuð loforð stjórnvalda.

Til að koma í veg fyrir enn alvarlegri afleiðingar efnahagshrunsins, verður að koma á starfhæfri ríkisstjórn sem fyrst. Sú stjórn verður að setja sér markmið og móta skýra og raunhæfa stefnu um hvernig vinna á þjóðina út úr núverandi kreppu. Þannig fær almenningur tiltrú á aðgerðum ríkisvaldsins og tekur fullan þátt í endurreisnarstarfinu. Dugleg þjóð, með raunhæf markmið og skýra stefnu, mun endurheimta tiltrú annarra landa..