Lífeyrismál - félagsfundur 5. maí 2009

Lífeyrismál - félagsfundur 5. maí 2009  

Fundagerð / glærur


Félagsfundur í FIT haldinn 05.05.09 að Borgartúni 30 kl. 20

Dagskrá: Lífeyrismál.

Þorbjörn Guðmundsson formaður stjórnar Sameinaða Lífeyrissjóðsins fór yfir rekstur SL vegna ársins 2008. Tekjur sjóðsins jukust um 12%, lífeyrir hækkaði um 17,2% og þeim sem greiddu til tryggingardeildar fjölgaði um 1% og voru í árslok 12.213. Eignir sjóðsins voru um 96 milljarðar í upphafi ársins 2008 en um 90 milljarðar í lok ársins og höfðu því rýrnað um 6 milljarða.

Nafnávöxtun sjóðsins var neikvæð um 9,8% og raunávöxtun um 22,5%. Ávöxtun frá upphafi sjóðsins er um 4% en sé horft til ársins 2007 var meðal ávöxtun s.l. 5 ára 7,5% en sé horft 5 ár til baka í dag er hún nærri núllinu.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins var um áramótin 13%. Fyrir liggur tillaga frá stjórn sjóðsins um 10% skerðingu réttinda og verði hún samþykkt á ársfundinum breytist tryggingafræðileg staða sjóðsins úr -13% í - 4,0%. Ástæðan fyrir því að stjórnin leggur til að nú þegar verði brugðist við, þrátt fyrir bráðbirgðarákvæði sem heimilar að mismunur milli eigna og skuldbindinga megi vera allt að 15% árið 2009, er að ekkert bendir til að efnahagsstaðan breytist á næstunni.

Allt s.l. ár var unnið að því að breyta eignasafni S.L. þ.e. færa eignir sjóðsins úr hlutabréfum í öruggari eignir m.a voru keypt skuldabréf sem talin voru tillögulega örugg fjárfesting. Með neyðarlögunum s.l. haust var nánast allt skuldabréfasafn lífeyrissjóðanna gert verðlaust. Í reikningum sjóðsins er gert ráð fyrir að gera upp gjaldmiðlasamninga miðað við gengisvísitöluna 175 en það er það gengi sem hún stóð í þegar hrun bankanna átti sér stað en í dag stendur vísitalan í kringum 220. Mikil óvissa ríkir um uppgjör gjaldmiðlasamninganna og ekki ólíklegt að þeir endi fyrir dómstólum.

Neyðarlögin gera ráð fyrir að hægt sé i að skuldajafna í bönkunum og í ársreikningi sjóðsins vegna 2008 er skuldajafnað á móti gjaldmiðlasamningunum og þegar tekið hefur verið tillit til þess stendur eftir 2.8 milljarða skuld.

Í ársreikningi sjóðsins er gert ráð fyrir varúðarafskriftum sem nemur rúmum 8 milljörðum og mikil óvissa ríkir um verðmæti þeirra eigna.

Þorbjörn fór yfir umhverfið sem sjóðurinn hefur starfað í s.l. misseri og benti á að íslenska úrvalsvísitalan hefði lækkað um 94,4% og íslenska krónan um 80,24%. Engar gengisvarnir væru til staðar í dag og í gildi eru gjaldeyrishöft. Miklar líkur eru á að krónan muni styrkast á næstu misserum sem mun leiða til þess að erlendar eignir lækki í íslenskum krónum.

Þá rakti Þorbjörn launamál starfsmanna og svaraði spurningum um kjör starfsmanna sjóðsins. Hann gerði grein fyrir að laun framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hefðu lækkað um 10% um s.l. áramót.


Laun framkvæmdastjóra:
Í ársreikningi SL vegna 2008 eru tilgreind laun framkvæmdastjóra 18. milljónir þar af eru bílahlunnindi tæp 16 hundruð þúsund kr.
Mánaðarlaun hans voru 2008 1.370.000 kr. en eru í dag 1.210.000 kr.

Laun formanns stjórnar voru:
122.000 kr. en eru í dag 108.000 kr.
Laun varaformanns voru:
91.500 kr. eru í dag 82.000 kr.
Laun annarra stjórnarmanna voru:
61.000 kr. en eru 55.000 kr.

Þorbjörn fór einnig yfir þá gagnrýni sem fram hefur komið á lífeyrissjóðina þ.á.m. ferðir erlendis og boðsferðir á vegum bankanna. Hann greindi frá því að framkvæmdastjóri og forstöðumaður eignasviðs hefðu farið að meðaltali 5 ferðir á ári til útlanda en í því sambandi væri nauðsynlegt að horfa til þess að milli 30 og 40% eigna sjóðsins hefði verið í fjárvörslu erlendis. Varðandi ásakanir um að forstöðumenn og stjórnarmenn lífeyrissjóða hefðu þegið boðsferðir banka og fjármálastofanna væri rétt að taka fram að engin stjórnarmaður SL hefði þegið slík boð en framkvæmdastjóri og forstöðumaður eignasviðs hefðu farið í eina veiðiferð á ári í boði fjármálstofnanna sl. ár. Hann sagði það hafa verið mikil mistök af þeirra hálfu og unnið væri að því að setja skýrar reglur um að slíkt væri ekki leyfilegt.

Hann ræddi einnig um þær ásakanir að stjórnarmenn og forstöðumenn lífeyrissjóða hefðu þegið sérstaka fyrirgreiðslu í bönkum til að kaupa hlutabréf. Hann sagði það sína skoðun að þetta ætti ekki við SL en hann hefði óskað eftir því við innriendurskoðanda sjóðsins að hann fengi þessa vissu sína þetta staðfesta með ítarlegri skoðun. Gert er ráð fyrir þeirri skoðun verði lokið fyrir ársfund sjóðsins.

Hvernig ætlar sjóðurinn að bregðast við þeirri stöðu sem hann er í spurði Þorbjörn. Hann sagði umhverfið og stöðuna framundan einkennast af miklum sveiflum, óstöðugleika og mikilli óvissu bæði á Íslandi og erlendis. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er nánast óvirkur og ekki margir áhugaverðir fjárfestingakostir í boði. Helst virðist áhugavert að fjárfesta í ríkispappírum, skuldabréfum sveitarfélaga og nýta háa vexti á innlánsreikningum. Hann lagði áherslu á að með markvissum hætti verðum við að endurvinna stöðu fyrri ára en til að svo geti orðið þarf raunávöxtun næstu ára að vera 4,5%-5%.

Þá tók til máls Kristján Örn Sigurðsson framkv. stjóri Sameinaða Lífeyrissjóðsins. Kristján sem rakti rekstur sjóðsins sl. ár tók mjög í sama streng og Þorbjörn. Þá fór Kristján yfir eignasafn sjóðsins erlendis og innanlands og sagði frá þeim bréfum sem hafa verið færð niður.

Hvað framtíðin ber í skauti sér er óvíst en árið 2009 verður erfitt,
bjartara 2010 og mikið verður um innlenda fjárfestingakosti á næstunni og endurskipulagningu á bönkunum, sem er breyting frá fyrri árum.

Spurningar úr sal voru all nokkrar og leystu Kristján og Þorbjörn úr fyrirspurnum fundarmanna.

Þá var borin upp ályktun frá fundinum og hún samþ. samhljóða.

Fundarsókn 55 manns.

Kaffiveitingar voru að loknum fundi.
fundi slitið kl. 22:00

Sveinn Ingason fundarritari.