Bygginga- og mannvirkjasviði IÐUNNAR

Námskeið á haustönn hjá Bygginga- og mannvirkjasviði IÐUNNAR - fræðsluseturs


Framboð á námskeiðum fyrir fagmenn í byggingariðnaði verður fjölbreytt nú í haust eins og jafnan áður. Bygginga- og mannvirkjasvið IÐUNNAR fræðsluseturs stendur fyrir á fjórða tug námskeiða fyrir húsasmiði, húsgagnasmiði, pípulagningamenn, málara, múrara og dúklagningamenn. Einnig eru í boði almenn námskeið sem ætluð eru öllum byggingamönnum og námskeið fyrir byggingarliða. Námskeiðin sem um ræðir eru haldin í Reykjavík, Akranesi, Akureyri, Selfossi og Reykjanesbæ.

IÐAN hefur gefið út námsvísi yfir framboð allra námskeiða sem í boði eru í haust. Hann má nálgast í heild sinni á heimasíðu IÐUNNAR . Einnig er hægt að hringja í IÐUNA í síma 590 6400 og óska eftir því að fá námsvísinn sendan heim. Vakin er athygli á því að það geta allir meðlimir þeirra félaga sem eru aðilar að IÐUNNI sótt öll námskeið á hennar vegum nema þar sem um er að ræða sérstök réttindanámskeið fyrir einstaka iðngreinar. Þannig getur múrari sótt námskeið í smurbrauðsgerð ef hann kærir sig um. Einnig er vakin séstök athygli á tölvu- og stjórnunarnámskeiðum sem ætluð eru öllum félagsmönnum IÐUNNAR.

Nú um stundir er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að menn hafi yfir að ráða víðtækri þekkingu. Með því að auka þekkingu sína eykst fjölhæfni og fyrir vikið geta menn tekið að sér fleiri og fjölbreyttari verkefni. Þeir sem sækja sí- og endurmenntun eru mun líklegri en aðrir til að aðlaga sig breyttum aðstæðum og geta tekið á nýjum verkefnum.
IÐAN - fræðslusetur er þátttakandi í Völundarverki Reykjavíkur sem er átaksverkefni sem ætlað er að skapa störf og stuðla að verndun og viðhaldi gamalla húsa og menningarverðmæta í Reykjavík. Verkefnið hefur tekið mið af svokölluðu Halland verkefni í Svíþjóð. Auglýst hefur verið eftir þátttakendum úr hópi atvinnuleitenda og munu þeir taka þátt í 4 vikna bóklegu og verklegu námskeiði um viðhald og viðgerðir á eldri húsum. Í framhaldi af því munu þátttakendur starfa í nokkra mánuði við slík verkefni sem unnin eru á vegum Reykjavíkurborgar.

Ólafur Ástgeirsson
Sviðsstjóri bygginga- og mannvirkjasviðs
IÐAN - fræðslusetur


 


 

Ólafur Ástgeirsson