Raunfærnismat á Suðurnesjum

Raunfærnismat á Suðurnesjum  

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum tekur við umsóknum í raunfærnimat í húsasmíði fram til föstudagsins 23.10.2009.  Áhugasömum er bent á að hafa samband við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjunum í s: 421-7500 eða með tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Margir einstaklingar á vinnumarkaðnum hafa í gegnum áralanga reynslu byggt upp umtalsverða færni í ákveðinni iðngrein, en ekki lokið námi af einhverjum ástæðum.
Þessir einstaklingar búa yfir raunfærni sem vert er að skoða og meta. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur mótað aðferðafræðina, ráðgjöf og þjálfun fagaðila en IÐAN fræðslusetur hefur umsjón með raunfærnimati í sínum iðngreinum.


Mat á raunfærni byggist á því að meta færni einstaklinga og setja fram raunstöðu hans í sinni iðngrein. Að því loknu eru allar leiðir skoðaðar til þess að einstaklingur ljúki námi. Tilgangur raunfærnimats er að draga fram og meta raunfærni sem einstaklingurinn býr yfir.


Skilyrðin fyrir þátttöku í slíku mati er 25 ára lífaldur og 5 ára staðfestur vinnutími (með opinberum gögnum) í greininni sem einstaklingur hyggst ljúka námi í.


Mikilvægt er að hafa í huga að raunfærnimat er ekki undanþága frá þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt aðalnámsskrá og einungis er verið að meta faggreinar brautarinnar.


Raunfærnimatsferlið er í fimm liðum.
1. Upplýsingum miðlað og endurgjöf. Viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa og þátttakendur afla gagna s.s. lífeyrissjóðsyfirliti og náms- og starfsferli.
2. Skráning í færnimöppu, þar er skjalfest almenn færni og sjálfsmat þátttakenda á faggreinum námsins.
3. Greiningarviðtal þar sem fagaðili hittir þátttakandann og er farið yfir færni og þekkingu hans, honum til stuðnings er náms- og starfsráðgjafi.
4. Staðfesting á loknum áföngum.
5. Mat og viðurkenning á raunfærni. Námsáætlun útbúin.


Í öllum tilvikum stendur eitthvað nám eftir og þá er útbúin námsáætlun fyrir þátttakandann til þess að hann getið lokið því námi sem eftir er ásamt námssamningi og sótt um sveinspróf.


Raunfærnimat er mikil hvatning til náms fyrir einstaklinga á vinnumarkaði og gefur þeim tækifæri á að ljúka námi.


MSS tekur við umsóknum í raunfærnimat fram til 23.10.2009. Umsókn má nálgast á heimasíðu MSS.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjunum í s: 421-7500 eða með tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .