IÐAN fræðslusetur vinnur með Vinnumálastofnun

IÐAN fræðslusetur vinnur með Vinnumálastofnun og býður atvinnuleitendum í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa.  
Atvinnuleysi er nú yfir 7% á landsmælikvarða, en mismunandi eftir svæðum. Mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þörfin fyrir náms- og starfsráðgjöf hefur aukist mjög mikið án þess að fjárveitingar hafi aukist í sama mæli til að mæta ráðgjafaþörfinni á vegum Vinnumálastofnunar. Með þessu samkomulagi verður atvinnuleitendum boðin ráðgjöf hjá IÐUNNI fræðslusetri en þar starfa náms- og starfsráðgjafar. Atvinnuleitendur geta á grundvelli þessa samstarfs átt von á að vera kallaðir til skylduviðtals hjá IÐUNNI fræðslusetri þar sem hugað verður að virkni í atvinnuleit, endurmenntun, endurhæfing og hvernig hægt er að viðhalda hæfni og félagslegri virkni á þessum tímamótum.