Nýr kjarasamningur við Norðurál

Nýr kjarasamningur við Norðurál
Skrifað var undir nýjan kjarasamning við Norðurál um miðnætti í gærkvöld. Meginefni hans er grunnlaunahækkun iðnaðarmanna uppá rúmlega 5,5%, auk þess hækka bónusar um 3,75% og fer heildarbónus í 11,25% og að lokum er eingreiðsla frá fyrirtækinu uppá 150.000 krónur. Einnig kemur inn nýr launataxti fyrir iðnaðarmenn með tvö sveinsbréf, vélfræði eða vélstjórnarmenntun sem nýtist í starfi og er hann 3% hærri en grunntaxtinn. Auk þessa fær starfsfólk Norðuráls verkfallsrétt gegn ákveðnum skilmálum um niðurkeyrslu verksmiðjunnar komi til þess. Samningurinn er til 5 ára og gildir frá 1. Janúar s.l. en launaliður samningsins verður laus um næstu áramót og verður þá jafnframt samið um frekari endurskoðunarákvæði launaliðar. Þá er bókun með samningnum sem staðfestir vilja aðila til að koma á starfstengdu námi, þ.e. stóriðjuskóla. Í því sambandi verður stofnuð nefnd til að vinna að því máli sem ljúka á störfum fyrir næstu áramót.

Óhætt er að segja að með samningnum ljúki löngu og ströngu samningaferli en aðilar byrjuðu að tala saman í október s.l. Ekki verður sagt að fullnaðarsigur hafi unnist í þessum áfanga um jöfnun á launakjörum við stóriðjuverksmiðjurnar á suðvesturhorninu, en eingreiðslan bætir það upp að mati samninganefndar og þannig næst ásættanlegur samanburður. Það er því ljóst að baráttan heldur áfram um næstu áramót eigi að halda launakjörum sambærilegum eins og samninganefndin stefnir að.

Næsta skref er að kynna samninginn fyrir starfsmönnum og greiða um hann atkvæði og verður það gert á næstu dögum.