Heldrimannaferð FIT

Heldrimannaferð FIT
„Heldrimannaferð FIT" var farin 25.september. Þátttaka að þessu sinni var með allra besta móti þrátt fyrir heldur dapurt veðurútlit. Úr rættist þó og eflaust hefur Finnbogi heitinn Eyjólfsson sem leitt hefur þessar ferðir undanfarin ár verið á varðbergi því hann sagði alltaf vera sólskin hjá „heldri mönnum FIT og viti menn þar sem tekið var til altaris að hætti Finnboga stytti upp, vind lægði og sólin sýndi sig. 79 „heldri menn" af höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suðurlandi og Akranesi lögðu upp frá Borgartúni 30 kl. 10 árdegis 25. september, einnig voru með í ferðinni 5 aðrir félagar FIT.

Haldið var í Borgarnes og „tekið til altaris" í nýrri verkstæðisbyggingu Brákarsunds ehf í boði Halldórs Haraldssonar bifvélavirkja. Þar glingruðu menn við stút, sögðu sögur og tóku lagið við undirleik fararstjóra og Boga Sigurðssonar.Þá var haldið að Hraunsnefi í Norðurárdal og snæddur hádegisverður, lambalæri að hætti „heldri manna". Þar tók Gísli Brynjólfsson nokkur lög á harmonikkuna fyrir félagana, einnig kynnti Gísli geisladisk sem hann hefur gefið út, þá lék Bogi Sigurðsson á harmonikkuna fyrir okkur.

Næst var haldið að Hvanneyri. Þar tók á móti hópnum Guðmundur Hallgrímsson sem leiddi menn í kirkju og rakti sögu staðarins, einnig var farð í Ullarsetrið, Búvélasafnið, og endað í fjósinu þar sem hópurinn kynntist nýjustu tækni við mjaltir.Frá Hvanneyri hélt hópurinn í félagsheimili hestamanna í Borgarnesi þar sem okkar biðu góðgerðir framreiddar af „Hvíta bænum" Borgarnesi, kaffi, súkkulaði og pönnukökur. Þar var tekið hraustlega til altaris að hætti Finnboga. Þá þöndu nikkuna Lárus Lárusson, Konráð Fjeldsted, og Bogi Sigurðsson. Haldið var heim á leið um kl.17:30 og komið í Borgartúnið kl. 18:30.

Ferðin tókst í alla staði vel og voru allir glaðir og sáttir við daginn.

Sveinn Ingason fararstjóri

Hægt er að skoða fleiri myndir hér.