Stjórn FIT í fræðslu og kynnisferð

Stjórn FIT í fræðslu og kynnisferð
Stjórn FIT fór í síðustu viku í fræðslu- og kynnisferð til Seattle í Bandaríkjunum. Í ferðinni sóttu stjórnarmenn bæði námskeið í lestri ársreikninga og ábyrgð stjórnarmanna og heimsóttu auk þess flugvélaverksmiðjur Boeing.

Á námskeiðinu var unnið með ársreikning FIT fyrir 2009 enda sérstök áhersla lögð á ársreikninga stéttarfélaga í þeim tilgangi að stjórnarmenn FIT yrðu færari í að meta betur þróun og áhættu einstakra liða í rekstri og efnahag félagsins. Hvað ábyrgð stjórnarmanna varðar var bæði fjallað um ábyrgð þeirra gangvart félagsmönnum sem og ábyrgð þeirra gagnvart lögum, reglum og almennum starfsháttum. Í heimsókninni til Boeing kynntust stjórnarmenn áhugaverðri starfsemi þeirra og beindist áhuginn sérstaklega að nýrri tækni sem er verið að þróa þar sem vélar eru að miklu leiti byggðar úr koltrefjum og sjá menn fyrir sér að slíkt muni þróast yfir í bílasmíðina. Það var ráðgjafafyrirtækið Invis sem skipulagði ferðina og annaðist fræðslu.

Við stofnun félagsins 2003 ákvað stjórn að ekki yrði greitt sérstaklega fyrir stjórnarsetu en þess í stað yrði stjórnarmönnum boðið uppá sérhæfð námskeið og kynningar sem til þess væru fallin að efla þekkingu og færni stjórnarmanna og var það lagt til grundvallar við ákvörðun þessarar ferðar. Þess má að lokum geta að þeir stjórnarmenn sem buðu maka með í ferðina bera þann aukakostnað sem af því hlaust.