Heldrimannaferð

   
Heldrimannaferð FIT var farin 24. september. Þátttaka að þessu sinni var með besta móti þrátt fyrir heldur dapurt veðurútlit. Úr rættist þó og upp úr hádegi skein sólin. Heldri menn af Höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Akranesi lögðu upp frá Borgartúni 30 kl. 10 árdegis suður með sjó þar sem heldri menn af Suðurnesjum biðu okkar.

Haldið var á varnarsvæði Keflavíkurflugvallar undir styrkri stjórn Guðmundar Péturssonar, sem útvegað hafði hópnum vegabréf því nú skyldi haldið í það allra helgasta undir eftirliti lögreglu. Ekið var um varnarsvæði og bar margt forvitnilegt fyrir augu. Að lokum var tekið til altaris að hætti heldri manna í einu rammgerðasta byrgi á Íslandi en þar höfðu herþotur NATO aðsetur og eru skýlin 13 talsins sem enn standa á vellinum.

Höfðu menn á orði sem unnið höfðu á vellinum í tugi ára að þeir hefðu aldrei komið þarna og vissu ekki einu sinni hvar skýlin eru staðsett. Þar sögðu menn sögur og tóku lagið við undirleik Sveins fararstjóra, Boga Sigurðssonar og fleiri.

Þá var haldið að Garðskagavita nánar tiltekið kaffi Flös og snæddur hádegisverður. Á kaffi Flös gátu menn skoðað merkilegt safn véla og búnaðar til sjóferða frá fyrri tíma. Þá léku Bogi Sigurðsson og Konráð Fjelsteð á harmonikkurnar fyrir okkur og fararstjóri stýrði fjöldasöng.Næst var haldið að Krossmóa Reykjanesbæ þar sem FIT er með þjónustuskrifstofu. Þar gæddu menn sér á kaffi og rjómapönnukökum.

Að hætti Finnboga heitins Eyjólfssonar var tekið til altaris og harmonikkurnar þandar til hins ýtrasta. Mikil glaðværð og kátína var meðal manna og greinilegt að menn hafa tekið dágóðan skammt af góða skapinu með sér í ferðina.

Feriðnni lauk við Borgartúnið um kl. 18 og voru menn sammála um að vel hafi til tekist. 

Hægt er að skoða fleiri myndir hér.