Ferð heldrifélaga

 

Ferð heldri félagsmanna FIT var farin laugardaginn 21. september. Safnast var saman við Borgartún 30 í Reykjavík kl.10, nema sunnlendingar sem voru teknir upp á leiðinni, því förinni var heitið austur fyrir fjall. Fyrst var áð á Selfossi þar sem formaður FIT tók drengina til altaris en síðan var haldið að Drangshlíð, þar sem snæddur var hádegisverður. Þegar kaffið var borið var harmonikkan dregin fram og sungu menn nokkur lög. Því næst var farið í samgöngusafnið á Skógum þar sem skoðaðir vor ýmsir munir frá árdaga bílsins, vélar og bátar og mikið og merkilegt safn talstöðva og síma. Einnig gaf að líta safn björgunarfélaganna með allskyns gömlum munum og tækjum.
 
rh object-4407
 
Eftir mikla og góða skoðun á safninu þótti við hæfi að taka hópinn til altaris og fara svo í lautarferð þar sem teknar voru hópmyndir. Leiðin lá svo til baka til Hellu þar sem hópurinn fékk kaffi og rjómapönnukökur ásamt hressingu. Aftur var nikkan dregin fram og var nú mikið sungið en einnig höfðu menn margt að spjalla. Ferðinni lauk svo við Borgartúnið um kl. 19 eða klukkustund síðar en áætlað hafði verið. Enginn hafði þó neitt við það að athuga og hefðu menn eflaust viljað vera lengur, slíkur var áhuginn og gleðin.
 
rh object-4788
 
Ferðin var á ábyrgð Hilmars Harðarsonar, formanns. Ljósmyndari var Rúnar Hreinsson en fararstjórn var í höndum Hermanns Guðmundssonar í forföllum Sveins Ingasonar.