Lokað vegna jarðarfarar

 

Í dag föstudaginn 20. desember verða skrifstofur FIT lokaðar frá kl.13:00, vegna jarðarfarar Sveins Ingasonar ritara stjórnar FIT. Sveinn lést á landspítalanum þann 13. desember eftir baráttu við krabbamein undanfarna mánuði. Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju kl. 15 þann 20. desember.

 

Svenni, eins og hann var alltaf kallaður starfaði mikið að verkalýðsmálum hin síðari ár eða frá því hann var kosinn í trúnaðarráð Bíliðnafélagsins 1997. Hann var kjörinn varaformaður þess félags 1998 og síðan í stjórn FIT þegar það var stofnað af 5 iðnaðarmannafélögum 2003. Hann gegndi stöðu ritara stjórnar FIT frá upphafi til dánardægurs.

 

Svenni sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir FIT. Sat í miðstjórn Samiðnar, fulltrúi í Starfsgreinaráði farartækja og flutningsgreina, framkvæmdastjóri Bílmenntar og fulltrúi á mörgum þingum Samiðnar og ASÍ. Hann sótti auk þess fjölmargar ráðstefnur og fundi á vegum félagsins. Svenni var varamaður í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins 2010 til 2012.

 

Undanfarin ár var Svenni fararstjóri í Heldrimannaferðum FIT við fádæma góðar undirtektir. Í þessum ferðum lék Svenni á alls oddi og fór með gamanmál og vísur, en hann kunni ógrynni af slíku. Svenni var drengur góður og mikill vinur vina sinna, hafði góða nærveru og átti auðvelt með að umgangast fólk. Hans verður sárt saknað.

 

Um leið og við þökkum fyrir allt það góða og óeigingjarna starf sem Svenni lagði á sig fyrir félagið, vottum við fjölskyldunni okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Sveins Ingasonar.

 

Stjórn og starfsfólk Félags iðn- og tæknigreina.