Ferð heldrifélaga 2014

Laugardaginn 13. september var farið í árlega ferð „Heldri félagsmanna“ FIT. Litlar rútur komu með félaga frá Akranesi og Reykjanesi en farið var á tveim stórum rútum frá Borgartúni 30 klukkan 10:00. Ekið var sem leið lá austur fyrir fjall og félagar teknir upp í Hveragerði og á Selfossi og urðu þátttakendur alls 76. Fyrsta altarisgangan fór fram á planinu við vegamótin upp í hreppa en síðan var ekið viðstöðulaust til Landeyjarhafnar og ferjan Baldur tekin til Vestmanneyja.

rh object-9551

 

Mikil ánægja og kæti var hjá mönnum þegar ljóst var að ferðinni væri heitið til Vestmannaeyja og kepptust menn við að rifja upp hvenær þeir hefðu síðast komið þangað og jafnvel dæmi um að einstaka menn væru að koma þangað í fyrsta sinn. Þegar til Eyja kom var ekið með hópinn á Hótel Vestmannaeyjar þar sem Veitingastaðurinn Einsi kaldi  tilreiddi steikt lambalæri með kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og brúnni sósu. Í eftirrétt var boðið uppá ís og ávexti og franska súkkulaðiköku, og auk þess kaffi og koníak. Milli rétta þandi Bogi Sigurðsson nikkuna og var vel tekið undir með söng. Að lokum kom svo „Gauji bæjó“, Guðjón  Hjörleifsson fyrrverandi bæjarstjóri og þingmaður og skemmti mönnum með sögum. Honum var vel tekið enda annálaður fyrir skemmtisögur sínar. Að svo búnu var ekið uppá Stórhöfða þar sem fram fór altarisganga og hópmyndataka. Ekki reyndist tími til að fara upp á hraun  því mæting var í skipið kl 17:00. Síðustu mínútunum var eytt í akstur um bæinn undir góðri leiðsögn Rúnars Bogasonar Eyjamanns og varamanns í stjórn FIT. Heimferðin gekk vel og var gert stutt stopp á Hvolsvelli þar sem síðasta altarisgangan fór fram. Það voru þreyttir og ánægðir „Heldri félagar“ sem komu til síns heima um kvöldið og allir ákveðnir í að mæta í næstu ferð að ári.

rh object-9408

Auk fyrrgreindra 76 félaga voru í ferðinni formaður félagsins Hilmar Harðarson og Rúnar Hreinsson, ljósmyndari, en fararstjóri var Hermann Guðmundsson.

Myndir frá ferðinni munu birtast á heimasíðunni fljótlega