Iðnfélögin sameinast um samstarf

Landssambönd og félög iðnaðarmanna hafa gert með sér samkomulag um samstarf í komandi kjaraviðræðum. Vilja hækka laun og stytta vinnutíma gegn aukinni framleiðni.

20150225samstarfikjaravidraedum

Á myndinni eru Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA, Lilja Sæmundsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina, Georg Páll Skúlason formaður Félags bókagerðarmanna, Hilmar Harðarson formaður Samiðnar, Kristján Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og Guðmundur Ragnarsson formaður VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna. Á myndina vantar formann Matvís.

Fréttatilkynning félaga iðnaðarmanna

Landssambönd og félög iðnaðarmanna með um 18.000 félagsmenn hafa gert með sér samkomulag um samstarf í komandi kjaraviðræðum. Samkomulagið tekur m.a. til framsetningar á kröfum og markmiðum í aðalkjarasamningum félaganna við SA, samstilltra verkfallsaðgerða og samráðs á vettvangi ASÍ.
Krafa iðnaðarmanna í komandi kjaraviðræðum er endurskoðun á launakerfum iðnaðarmanna með það að markmiði að dagvinnulaun dugi til framfærslu. Hún næst meðal annars með því að auka framleiðni og stytta vinnutíma. Núverandi launakerfi byggir á lágum grunnlaunum sem neyðir launamenn til að halda uppi afkomu sinni með mikilli yfirvinnu.
Mikil þörf er fyrir nýliðun í greinunum en þetta vinnufyrirkomulag er úrelt og hefur skapað starfsumhverfi sem höfðar ekki til ungs fólks. Iðnaðarmenn gera kröfu um fjölskylduvænt samfélag þar sem jafnvægi er á milli vinnutíma og einkalífs.
Félögin telja afar brýnt að unnið verði að fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og komið verði á víðtækara vinnustaðaeftirliti.
Að samkomulaginu standa:
Rafiðnaðarsamband Íslands, SAMIÐN, Félag bókagerðarmanna, MATVÍS, Félag hársnyrtisveina og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Reykjavík, 25. febrúar 2015