Heldrimannaferð FIT

„Heldri félagsmenn“ í Félagi iðn- og tæknigreina fóru í sína árlegu ferð laugardaginn 26. september. Félagar frá Akranesi og Reykjanesi voru sóttir og síðan farið á tveim rútum frá Borgartúni 30 klukkan 10:00. Ekið var sem leið lá austur fyrir fjall og félagar teknir upp í Hveragerði og á Selfossi. Þátttakendur urðu alls 88 en auk þess voru í ferðinni formaður félagsins Hilmar Harðarson, Rúnar Hreinsson, ljósmyndari og fararstjóri Gunnar Halldór Gunnarsson.
Fyrsti áfangastaður ferðarinnar var að skoða Urriðafoss þar sem fyrirhugað er að reisa virkjun í neðri hluta Þjórsár. Fyrsta altarisganga ferðarinnar fór þar fram á planinu. Síðan var ekið eins og leið lá til Hellu og matur snæddur á Hóteli Stracta. Þar var tekið á móti mönnum með fordrykk og samkvæmt venju var lambalæri framreitt með tilbehör. Eftir kaffi og desert var lagið tekið við undirleik harmonikkuspils Boga Sigurðssonar. Sjá myndir hér frá ferðinni

rh object-2428

Að því loknu var lagt af stað áleiðis til Skálholts. Séra Halldór Reynisson tók á móti hópnum á þessum merka sögustað en á Skálholti hefur staðið þorp húsa af ýmsum stærðum og gerðum sem mynduðu fyrsta þéttbýli á Íslandi. Halldór bauð hópnum inn í kikjuna og fræddi hópinn á sögu staðarins auk þess að segja frá sögu Ragnhildar og Daða. Góður rómur var gerður af fræðslu- og sögustundinni en eftir söng skoðuðu menn safnið í kjallara kirkjunnar og göngin auk Þorláksbúðar. Það þótti síðan tilhlíðilegt að taka til altaris undir kirkjuveggnum og hópmynd síðan tekin á kirkjutröppunum.
Það var síðan ekið áleiðis til Öndverðarness. Hilmar Harðarson formaður fræddi hópinn á leiðinn um staðinn og sagði frá framkvæmdum félagsins á staðnum þar sem m.a. er verið að byggja 4 orlofshús á vegum félagsins. Það var síðan tekið á móti hópnum með glæsilegu kaffihlaðborði á staðnum, sögur sagðar, vísur samdar og sungið með nikku undirspili. Þar var einnig tekið til altaris í síðasta skipti þessarar ferðar.
Heimferðin gekk vel og það voru þreyttir og ánægðir iðnaðarmenn sem komu til síns heima um kvöldið og allir auðvitað harðákveðnir í að mæta í næstu ferð að ári.
Að lokum eru hér tvær tækifærisvísur eftir ónafgreinda heldri félagsmenn:

Sem öldungur ég núna verð
er árum fer að fækka
að fyrir þessa góðu ferð
FIT af alúð þakka.

Ævi mín var oftast strit
En einnig sælufundir
Ég þó ferðast enn með FIT
og eignast gleðistundir.