Ferð heldri félagsmanna á laugardag

Laugardaginn 24 september fóru heldri félagsmenn FIT í árlega skemmti- og skoðunarferð.

Byrjað var á að senda bíla eftir félagsmönnum af Suðurlandi og Reykjanesi sem síðan komu að Borgartúni 30 þar sem félagmenn af höfuðborgarsvæðinu bættust í hópinn. Þessu næst var ekið til Akraness þar sem teknir voru upp nokkrir höfðingjar og í leiðinni notaði formaðurinn tækifærið til að taka hópinn til altaris. Þegar menn höfðu vætt kverkarnar Tók Bogi Sigurðsson við stjórnartaumunum og lét aka kynnisferð um Akranes með hópinn en hann er Skagamaður að upplagi og þekkir því vel til. Stefnan var svo tekin upp í Hvalfjörð til snæða hádegisverð og skoða Hernámssafnið að Hlöðum.

Staðarhaldarinn, „Gaui litli“ tók vel á móti hópnum, bauð upp á fordrykk og sagði skemmtisögur. Því næst var snæddur hádegisverður, hægeldað lambalæri með kartöflum, rauðkáli, grænum baunum og sósu og tóku menn hraustlega til matar síns. Bogi spilaði svo undir fjöldasöng, síðasta lag fyrir eftirrétt sem var heit súkkulaðikaka með rjómaís. Aftur var lagið tekið með undirleik Boga og skemmtu menn sér hið besta. Að lokum skoðuðu menn safnið og gáfu sér góðan tíma því ekki var ekið af stað aftur fyrr en kl. 15.

Þá var ekinn Dragvegur í átt til Skorradals og sá Lárus Lárusson um leiðsögnina enda verið að aka framhjá hans æskuslóðum í Grafardal og Skorradal. Lárus kunni frá mörgu að segja og vitnaði í fornsögur og nýrri vísdóm. Var gerður góður rómur að hans innleggi. Ekið var áfram yfir holt og hæðir og áð í minni Lundarreykjadals þar sem tími var kominn á altarisgöngu. Að henni lokinni var stefnan tekin í átt til Akraness þar sem kaffi með rjómapönnukökum beið ferðalanganna í Gamla kaupfélaginu.

Að sjálfsögðu var tækifærið notað til að spila og syngja og var að lokum kominn vísir að karlakór í kringum Boga harmonikkuleikara. Endað var á því að taka hópmynd og svo ekið til baka og fóru menn til síns heima sáttir og glaðir.
Í ferðinni voru:
Hilmar Harðarson, formaður. Hermann Guðmundsson, fararstjóri og Rúnar Hreinsson, ljósmyndari.

rh object 4551
Hádegisverður snæddur í Hernámssetrinu

rh object 3903
Altarisganga

rh object 4734
Bogi Sigurðsson spilar undir söng

rh object 4801

rh object 4864

rh object 5048Sungið og spilað á nikku

rh object 5093
Hópurinn allur

Sjá fleiri myndir á Facebook síðu FIT.