Sameinaði og Stafir sameinast í Birtu lífeyrissjóði

StjornBirtuLifeyrissjods

Sjóðfélagar Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs samþykktu einróma og mótatkvæðalaust á aukaársfundum sínum í gær að sameina sjóðina. Í kjölfarið var haldinn stofnfundur nýja sjóðsins þar sem nafn hans var kynnt Birta lífeyrissjóður. Góð stemning var á báðum fundum og var sameiningin samþykkt með dynjandi lófataki. Það telst til tíðinda að svo stórir lífeyrissjóðir sameinist og sameinaðir verða þeir fjórði stærsti lífeyrissjóður landsmanna með yfir 18000 virka sjóðfélaga og hreina eign upp á um 310 milljarða króna.

Tíu manna stjórn Birtu var kynnt á stofnfundinum og á fundi hennar sem haldinn var strax og loknum stofnfundinum voru Þorbjörn Guðmundsson kjörinn stjórnarformaður og Anna Guðný Aradóttir varaformaður Birtu til næsta ársfundar 2017. Meðal fyrstu verkefna stórnarinnar verður að ráða framkvæmdastjóra nýja lífeyrissjóðsins, finna sjóðnum húsnæði til framtíðar og undirbúa fyrstu skrefin að öðru leyti. Stefnt er að því að starfsemi í nafni Birtu lífeyrissjóðs hefjist fyrir lok ársins undir sama þaki.

Í baklandi lífeyrissjóðanna (samtökum atvinnurekenda og launafólks) er yfirlýst stefna að hagræða enn frekar í lífeyriskerfinu með því að fækka sjóðum og stækka þá og styrkja með sameiningum. Það þarf til að mynda stóra og öfluga sjóði til að standa undir sífellt meiri kröfum til sérhæfingar af ýmsu tagi.

  • Viðræður um sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa hófust í byrjun maí 2016. Þær hafa gengið vel og engar umtalsverðar hindranir orðið í vegi viðræðunefndanna, enda er uppbygging sjóðanna svipuð og bakland þeirra sömuleiðis.
  • Gert er ráð fyrir að sameiningin miðist við stöðu sjóðanna í byrjun árs 2016 en að ávinnsla réttinda í nýja sjóðnum hefjist 1. janúar 2017.
  • Við ársuppgjör 2015 kom í ljós að meðalávöxtun beggja sjóða síðastliðin fimm ár var nákvæmlega sú sama eða 6%. Ávöxtun eigna fyrstu sex mánuði ársins 2016 var nánast sú sama líka, þar munaði 0,1%!

Sameinaði lífeyrissjóðurinn varð til í ársbyrjun 1992 með sameiningu Lífeyrissjóðs byggingarmanna og Lífeyrissjóðs málm- og skipasmiða. Síðar bættust við lífeyrissjóðir bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara, verkstjóra og fleiri.

Stafir lífeyrissjóður varð til við samruna Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Lífiðnar í ársbyrjun 2007. Til Stafa greiða starfsmenn fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.

Það voru öll spjöld á lofti þegar greidd voru atkvæði um sameininguna.

StofnfundurBirtuLifeyrissjods
Birtu nafnið stóð upp úr

Aukaaðalfundir sjóðanna tveggja voru vel sóttir en þeir voru haldnir samtímis á Grand hóteli. Þegar sameiningin hafði verið samþykkt á báðum fundum var gert stutt fundarhlé á meðan opnað var á milli fundarsalanna tveggja og allt gert klárt fyrir stofnfund hins nýja sjóðs. Þar lá meðal annars fyrir að kynna nýtt nafn á sameinaðan sjóð. Allar samþykktir frá fyrri fundum runnu greiðlega í gegn á stofnfundinum og þegar koma að því að kynna nafn og merki sjóðsins mátti greina talsverða eftirvæntingu í loftinu. Það voru formenn sjóðanna tveggja sem kynntu nafnið þau Anna Guðný Aradóttir og Þorbjörn Guðmundsson. Þau sögðu ýmis nöfn hafa komið til skoðunar en nafnið Birta hefði alltaf staðið upp úr. Jafnframt var kynnt nýtt merki sjóðsins sem hannað er af auglýsingastofunni ENNEMM. Ekki var annað heyra en að nafnið og merkið féllu í góðan jarðveg og var hvoru tveggja fagnað með dynjandi lófataki. Sá sem átti hugmyndina að nafninu er Ólafur Haukur Jónsson framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins.

Stjórn Birtu

Stjórn Birtu lífeyrissjóðs var kynnt á stofnfundinum en aðalmenn í henni fyrir launamenn eru Gylfi Ingvarsson, Jakob Tryggvason, Unnur María Rafnsdóttir, Viðar Örn Traustason og Þorbjörn Guðmundsson. Fulltrúar atvinnurekenda í stjórninni eru: Anna Guðný Aradóttir, Davíð Hafsteinsson, Guðrún Jónsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir og Jón Bjarni Gunnarsson.