Ríkisstjórnin standi við fyrirheit um eflingu verk- og tæknináms

Á fundi sambandsstjórnar í dag afhenti formaður Samiðnar Hilmar Harðarson mennta- og menningarmálaráðherra áskorun þar sem yfirvöld menntamála eru hvött til að standa við fögur fyrirheit um eflingu verk- og tæknináms.  Hilmar lýsti yfir fullum samstarfsvilja Samiðnar til að hrinda slíkum áformum í framvæmd og hefja markvissar aðgerðar svo hægt sé að byggja upp verknámsskóla sem boðið geta ungu fólki nútímalegt og framsækið nám.
 
"Sambandsstjórnin skorar á ríkisstjórnina að leggja nú þegar fram áætlun um hvernig hún ætlar að standa við gefin fyrirheit sem fram koma í stjórnarsáttmálanum um eflingu verk- og tæknináms.
 
Sambandsstjórnarfundur Samiðnar lýsir yfir miklum áhyggjum af því hvernig stjórnvöld hafa vanrækt þann hluta menntakerfisins sem snýr að verknámi. Verknámsskólar hafa verið fjársveltir til margra ára sem hefur skert möguleika þeirra til að byggja af fullu afli upp verknám sem höfðar til ungs fólks. 
Samiðn lýsir yfir miklum vilja til samstarfs við ríkisstjórnina um að fara í markvissar aðgerðir til að efla verk- og tæknimenntun. Forsenda þess er að ríkisstjórnin sýni frumkvæði og raunverulegan vilja til að fara í aðgerðir og tryggi fjármagn til þess að hægt sé að byggja upp verknámsskóla sem geta boðið ungu fólki nútímalegt og framsækið nám. 
 
Tryggja verður nemum sem velja iðnnám, að þeir geti lokið námi í einni samfellu. Til þess þarf að styrkja vinnustaðanámssjóð til að auka áhuga og getu fyrirtækja til að taka nema í starfsþjálfun.
 
Æ færri ljúka sveinsprófi á ári hverju. Hægt er að tala um hrun í sumum iðngreinum. Átaks er þörf. Kynna þarf verk- og tækninám fyrir ungu fólki og ekki síður foreldrum, enda sýna rannsóknir að viðhorfin heima fyrir til námsvals ungmenna skipta miklu. Verk- og tækninám er frábært nám sem skapar mörg tækifæri á íslenskum vinnumarkaði og til áframhaldandi náms.
Skortur á iðnaðarmönnum er staðreynd og án róttækra aðgerða mun hann fara vaxandi á næstu árum."
IMG 5423 web